Keflavík tryggði sér í gær oddaleik í einvígi liðsins gegn Haukum í átta liða úrslitum Dominos deildar karla. Síðan liðum var fjölgað úr fjórum í átta í úrslitakeppni Íslandsmóts karla árið 1995 hafa 40 oddaleikir farið fram í átta liða úrslitum.
Í 33 skipti af þessum 40 leikjum heftur heimaliðið haft sigur í oddaleikjunum. Það þýðir að í einungis 17,5% skipta hefur útilið náð í sigur í oddaleik átta liða úrslita eða sjö talsins. Í fimmtán af þessum leikjum eru annað hvort Haukar eða Keflavík meðal þátttakanda, Keflavík ellefu sinnum og Haukar sex sinnum. Þar af hafa þessi lið mæst tvisvar innbirgðis.
Haukar hafa einu sinni áður tapað oddaleik á sínum heimavelli í átta liða úrslitum en það var árið 2003 gegn Tindastól, 85-89. Í þau sex skipti sem Haukar hafa þurft að leika oddaleik í átta liða úrslitum hafa þeir unnið þrjá þeirra þar, alla á heimavelli.
Keflavík hefur ellefu sinnum leikið oddaleik í átta liða úrslitum, fjóra á útivelli og sjö á heimavelli. Allir þessir leikir hafa unnist af heimaliðinu en Keflavík hefur nú tapað þremur oddaleikjum í röð í átta liða úrslitum. Síðasti sigur Keflavíkur í oddaleik í þessari umferð var árið 2011 í eftirminnilegu einvígi gegn ÍR.
Þessi lið hafa tvisvar mæst innbirgðis í oddaleik átta liða úrslita, það ar árin 2015 og 2002. Þar skiptust liðin á sigrum á sínum heimavelli. Síðast unnu Haukar 2015 eftir að hafa lent 2-0 undir í einvíginu rétt eins og Keflavík gerði í ár. Þetta er einungis þriðji oddaleikur þessara liða í sögu úrslitakeppninnar því auk þessara tveggja leikja í átta liða úrslitum þá mættust þau einnig í undanúrslitum árið 1988. Þar voru það Haukar sem höfðu sigur í Keflavík eftir framlengdan leik.
Síðasti útisigur í oddaleik í átta liða úrslitum var árið 2016 þegar Njarðvík vann sigur í Garðabæ á Stjörnunni. Það einvígi var áhugavert fyrir þær sakir að allir leikirnir unnust á útivelli.
Það verður því seint sagt að líkurnar séu með Keflavík fyrir oddaleikinn ef horft er til sögunnar. Ekki batna þær þegar horft er til þess að á þessum 23 árum sem átta liða úrslit hafa farið fram hefur lið í áttunda sæti einungis einu sinni slegið deildarmeistara úr leik. Það var árið 1998 þegar ÍA sem endaði í áttunda sæti sendi Grindavík sem enduðu efstir í snemmbúið sumarfrí.
Tekið skal fram að árið 2014 var leikjum í átta liða úrslitum fjölgað úr þremur í fimm. Fyrir það þurfti því einungis að vinna tvo leiki og hefur því oddaleikjum fækkað nokkuð frá því þá.
Þrátt fyrir að líkurnar séu ekki með Keflavík skyldi engin afskrifa þá. Liðið hefur komið til baka úr 2-0 stöðu í þessu einvígi og ekki nóg með það. Keflavík hefur einnig náð að safna kröftum og koma til baka eftir áfallið sem ótrúlega sigurkarfa Kára Jónssonar var í leik tvö fyrir þá. Heilt yfir hefur liðið spilað betur en deildarmeistararnir í einvíginu en það dylst engum að gæði Hauka eru gríðarleg enda liðið verið jafn besta lið tímabilsins. Það er því engin leið að spá fyrir um þennan leik og ljóst að stuðlameistari Lengjunnar verður seint öfundaður af verkefni sínu fyrir þennan leik.
Spennan er því ansi mikil fyrir oddaleik Hauka og Keflavíkur sem fer fram annað kvöld kl 19:15 að Ásvöllum. Ljóst er að stemmningin í Schenker höllinni verður að öllum líkindum mögnuð þar sem dagurinn eftir er frídagur og því engar afsakanir til fyrir stuðningsmenn beggja liða að mæta ekki.
Samantekt / Ólafur Þór
Mynd / Davíð Eldur – Frá oddaleik Hauka og Keflavíkur árið 2015.



