KR vann í kvöld yfirburðasigur í Reykjavíkurrimmunni gegn ÍR 85-67. Gestirnir úr Breiðholti léku án Nemanja Sovic og D´Andre Jordan Williams í leiknum og munaði um minna. Framan af veittu ÍR-ingar erkifjendum sínum verðuga mótspyrnu en djúpur hópur KR jók muninn jafnt og þétt með Kristófer Acox og Finn Magnússon í broddi fylkingar. KR hefur nú 20 stig í 6. sæti deildarinnar en ÍR situr á botninum með 8 stig og 1. deildin farin að toga ansi fast í bláa úr Hertz Hellinum.
Ef nokkurn tíman var til sektarsjóður í vesturbænum þá gildnaði hann verulega í kvöld þegar Brandon Richardson fékk ekki heimild til að hefja leikinn í liði KR. Líkast til var um einhverskonar klæðaburðarvandamál að ræða og rauk Richardson inn í klefa rétt fyrir uppkast og inn í hans stað kom Martin Hermannsson. Sektarsjóðir eru til margs brúklegir og komst það nú í hámæli hér í eina tíð þegar KR-ingurinn Finnur Magnússon varð að tala um sjálfan sig í þriðju persónu, það voru athyglisverð viðtöl.
Talandi um Finn Magnússon þá gerði hann 10 af 15 fyrstu stigum KR í leiknum og ÍR-ingum gekk illa að verjast landsliðsmanninum sem var beittur í kringum körfuna. Fyrsti leikhluti var hraður og skemmtilegur, mikið skorað á báða bóga, jafnt og allar forsendur í boði fyrir góða grannaglímu. Staðan 23-22 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Finnur var með 10 stig í liði KR og Eric Palm sömuleiðis í liði ÍR.
Kristófer Acox kom öflugur inn í fyrsta leikhluta og tók svo við keflinu af Finni í öðrum leikhluta og auðvitað hrikti kappinn í stöðum körfunnar með tilheyrandi viðbrögðum áhorfenda. Verður sjónvarsviptir af þessum tilþrifum þegar Kristófer heldur til náms í Bandaríkjunum svo það er skyldumæting fyrir körfuknattleiksunnendur að sjá KR leik þetta tímabilið.
Darshawn McClellan kom með fimm stiga bunu fyrir KR í öðrum leikhluta og tvö þeirra komu í formi troðslu yfir drjúgan hluta af ÍR vörninni. Vörn gestanna átti bagt með boltaflæði KR og voru heimamenn duglegir við að teygja á gestunum og skapa sér góð og opin skot í hornunum. Vilhjálmur Theodór Jónsson steig upp í liði ÍR og hann með Palm sér við hlið sáu til þess að heimamenn hefðu aðeins 13 stiga forskot í hálfleik. Palm var þá kominn með 23 stig í leikhléi og Vilhjálmur 13. Hjá KR var Finnur með 16 stig og Kristófer 14 en lokakarfa fyrri hálfleiks var einkar glæsileg. KR átti þá innkast undir körfu ÍR og grýttu þeir boltanum upp í loftið vitandi að enginn færi hærra en Kristófer sem kom aðvífandi og blakaði boltanum í netið, röndóttir héldu því vígreifir inn í búningsklefa.
Finnur Atli Magnússon opnaði síðari hálfleikinn með þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 58-44 en gestirnir höfðu lætt inn körfu á fyrstu sekúndunum. KR hóf síðari hálfleik með 10-2 spretti og staðan 65-44 og ljóst í hvað stefndi. Baráttuglaðir gestirnir á botninum áttu einfaldlega ekki erindi í breiðan hóp heimamanna sem fengu vegleg framlög úr ýmsum áttum. Darri Freyr Atlason kom sprækur inn í leikinn fyrir KR og sömuleiðis Tómas Aron Viggósson í liði ÍR. Staðan 75-55 að loknum þriðja leikhluta og ÍR björninn orðinn þrekaður.
ÍR þétti vörnina í fjórða leikhluta en skaðinn var skeður, bláir héldu heimamönnum í fjórum stigum fyrstu fimm mínútur fjórða leikhluta en það dugði ekki til og þegar Helgi Magnússon kom með þrist og breytti stöðunni í 82-62 flaug hvíta handklæðið inn á völlinn ef svo má að orði komast. Lokatölur 85-67 og kannski ljós í myrkrinu hjá ÍR að fá aðeins á sig 85 stig í kvöld en tvo leiki þar á undan fengu þeir á sig samtals 202 stig, 100 gegn Stjörnunni og 102 gegn Grindavík.
KR komst í kvöld aftur á sigurbraut eftir tap á útivelli í síðustu umferð og verma 6. sæti deildarinnar með 20 stig en ÍR á botninum með 8 stig. Það býr mikið í liði KR, hópurinn er breiður og ,,talentið” vantar ekki en stöðugleikinn hefur verið vandamál. ÍR-ingar hafa verið að keyra upp varnarleikinn sinn og það sést langar leiðir að Herbert Arnarson er að hrista upp í sínum mönnum, krafturinn og viljinn meiri í vörninni en hún er gloppótt engu að síður og samskiptaörðugleikar sem koma t.d. fram í því að hjálp í vörninni berst bæði seint og illa. Nú fer þó hver að verða síðastur til að næla sér í stig, sigursælasta lið Íslandssögunnar starir nú beint framan í 1. deildina og bara spurning um hver blikkar á undan.
Umfjöllun/ [email protected]



