22:59
{mosimage}
„Við erum deildarmeistarar” var það eina sem náðist upp úr Yngva Gunnlaugssyni, þjálfara Hauka, eftir leik Hauka og Keflavíkur í kvöld. Haukastúlkur sigruðu með yfirburðum, 82-67 og náðu mest 29 stiga forskoti seint í fjórða leikhluta.
Með sigrinum urðu Haukar deildarmeistarar í þriðja skiptið og tryggja sér heimavallaréttinn svo lengi sem þær taka þátt í úrslitakeppninni.
Leikurinn var jafn til að byrja með og munaði aldrei meira en 4 stigum á liðunum. Haukar höfðu þó frumkvæðið í leikhlutanum og leiddu með 4 stigum þegar hann kláraðist 21-17.
Hlutirnir breyttust skyndilega í öðrum leikhluta. Hann byrjaði jafn en eftir um þriggja mínútna leik tóku Haukar öll völd á dansgólfinu. Slavica Dimovska og Kristrún Sigurjónsdóttir fóru hamförum fyrir utan þriggjastiga línuna og settu saman niður fimm þriggjastigakörfur í fimm tilraunum. Haukar unnu leikhlutan 32-13 og gengu til hálfleiks með 23 stiga forskot 53-30.
{mosimage}
Keflavíkurstúlkur komu vel stemmdar til leiks eftir leikhlé og spiluðu fanta góðan bolta. Haukar héldu þó í við þær og vörðu 23 stiga forskot sitt vel. Leikhlutinn endaði jafn 17-17 og Haukar því enn með 23 stiga forskot fyrir loka leikhlutann, 70-47.
Það var alveg á hreinu að Haukar ætluðu ekki að hleypa Keflavík aftur inn í leikinn og þrátt fyrir að hafa tapað fjórða leikhluta 12-20 náðu þær að keyra muninn upp í 29 stig og skiptu svo minni spámönnum inná. Keflavík barðist í bökkum og minnkuðu muninn í 15 stig áður en leikhlutanum lauk en sprettur þeirra var kom alltof seint til að verða líklegur til árangurs um að komast aftur inn í leikinn.
{mosimage}
Slavica Dimovska var svakaleg fyrir Hauka með 31 stig (7 af 11 í þriggjastigaskotum), 9 fráköst og 8 stoðsendingar. Slavica fékk 46 framlagsstig og var komin með 36 í hálfleik. Guðbjörg Sverrisdóttir kom henni næst með 14 stig og 4 stolna bolta.
Hjá Keflavík var Pálína Gunnlaugsdóttir atkvæðamest með 15 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar og Bryndís Guðmundsdóttir kom henni næst með 13 stig og 11 fráköst.
Mynd: [email protected]
{mosimage}



