spot_img
HomeFréttirEinstaklingsframtakið bar sigur úr býtum í Garðabænum

Einstaklingsframtakið bar sigur úr býtum í Garðabænum

Það var fámennt en góðmennt í Garðabænum í kvöld í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar. Herra Garðabær og örfáir til viðbótar sáu sér fært að manna áhorfendastúkuna þrátt fyrir hamborgaralausan stinningskalda úti fyrir. Það voru silfurdrengirnir frá því í fyrra, ÍR-ingar, sem mættu Stjörnumönnum en ekki er langt síðan heimamenn lyftu bikarnum fagra eins og yngstu menn muna.
 
 
ÍR-ingar fóru mun betur af stað og Vilhjálmur setti fyrstu stigin á línunni. Eftir tvo fagra ÍR-þrista var staðan orðin 6-12. Sókn Stjörnumanna var afar einstaklingsmiðuð en það er hugtak sem á betur við í skólastofu en inni á körfuboltavelli. Á ÍR-ingum var aftur á móti liðsbragur með besta móti og komust gestirnir í 11-20. Þá fyrst áttuðu heimamenn sig á því að það er alveg nauðsynlegt að hreyfa sig í varnarleik og enduðu með ágætum spretti – staðan 20-23 eftir fyrsta fjórðung.
 
Annar leikhluti byrjaði fjörlega og liðin skiptust á flottum þristum. Þá tók við athyglisvert dómarasóló en þrjár villur voru dæmdar á núll sekúndum! Skemmtilegra sóló tók svo við þar sem hinir frábæru Svenni Klassi og Meistari Shouse fóru mikinn. Leikurinn var í góðu jafnvægi en bæði lið gerðu sig sek um ótímabær skot og annað rugl sem þjálfari ÍR fann sig knúinn til að stöðva með leikhléi. Stjörnumenn náðu að jafna leikinn í 40-40 skömmu síðar en gestirnir spýttu þá aftur í og höfðu smá forskot, 49-42, í hálfleik.
 
Það var eins og það vantaði smá bræðralag Stjörnumegin og stundin í klefanum var stutt og sennilega ekki mjög hjartnæm. Heimamenn byrjuðu heldur ekki vel í þriðja leikhluta þar sem Klassi og Matti bombuðu niður þristum. Staðan skyndilega 43-57 og stemmningin öll ÍR-inga. Dagur og Shouse reyndu að svara með þristum sem vildu ekki niður en mannval er gott í Stjörnuliðinu og Frye og Tommi svöruðu skarpt með nokkrum stigum. Það var eins og að kvótinn væri búinn sóknarlega hjá ÍR en þó má klárlega segja að Stjörnuvörnin styrktist jafnframt með hverri mínútunni. Það voru enn um 2 mínútur eftir er Dagur setti 5 stiga bunu upp úr engu og Stjarnan yfir í fyrsta sinn í leiknum, 64-62. Fyrir fjórða leikhluta höfðu svo Stjarnan komið sér 6 stigum yfir, 70-64.
 
Það var ljóst að ÍR-ingar þyrftu að sýna manndóm og meintan liðsbrag sem aldrei fyrr í lokaleikhlutanum. Hann fór hægt af stað og lítið skorað. Með betri og hreyfanlegri vörn heimamanna virtist smávaxið forskot Stjörnumanna vera ókleifur múr. Þegar tæpar 4 mínútur lifðu leiks höfðu heimamenn sett 10 stig á móti 5 stigum gestanna og staðan 80-71. Það ætti almennt ekki að vera búið tafl en tilfinning margra vafalaust sú að heimamenn höfðu töglin og hagldirnar. Hringsólssóknarkerfi Stjörnumanna gekk ágætlega í leikhlutanum á meðan hver karfa var sem kraftaverk hinu megin. Meistari Shouse kláraði leikinn að mati undirritaðs með flottum þristi, ekki í fyrsta skipti sem hann gerir það, staðan 85-75 og rúmar 2 mínútur eftir. Lokatölur 95-82 og Herra Garðabær og fylgismenn dustuðu rykið af ,,Tilfinninga-söngnum“ góða síðan í Kaplakrika í haust í miklum en fámennum fagnaðarlátum að leikslokum.
 
ÍR-ingar áttu ágætan leik og sýndu mikinn vilja í kvöld en réðu ekki við einstaklingsgæði mótherjanna að lokum. Trey Hampton skoraði 22 stig og tók 15 fráköst fyrir gestina í kvöld. Það er kannski ekki gagnrýnivert en þó verður að segjast að hann er töluvert takmarkaður leikmaður. Matthías var svo mjög flottur eins og vanalega með 19 stig og stýrði sínu liði vel.
 
Stjörnumenn hafa átt betri leiki en gæði einstakra leikmanna dugðu til sigurs í kvöld. Hvað sem því líður verður Stjarnan í 8-liða potti bikarkeppninnar. Meistari Shouse, Marvin, Frye og Dagur voru samtals með 77 stig, 25 fráköst og 15 stoðsendingar í liði heimamanna.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
Myndasafn: Bára Dröfn Kristnsdóttir
 
  
Fréttir
- Auglýsing -