spot_img
HomeFréttirEinstaklega auðvelt fyrir Snæfell

Einstaklega auðvelt fyrir Snæfell

Haukar fengu Snæfell í heimsókn í kvöld og þeir sem áttu von á þrusu einvígi fóru því miður fýluferð. Haukar hvíldu Lele Hardy og Dagbjörtu Samúelsdóttur en Hardy er búin að vera veik og Dagbjört meidd í baki. Án Hardy voru Haukar Snæfellingum ekki mikil hindrun og unnu Snæfell örugglega 48-89 þar sem leikurinn var í raun búinn um leið og hann hófst.
 
Snæfell hóf leikinn 0-9 þar sem að Hildur Björg Kjartansdóttir og Helga Hjördís Björgvinsdóttir skiptu á milli sín stigunum. Það tók Hauka fimm mínútur að skora sína fyrstu körfu og var sóknarleikurinn þeirra það slakur að þeim tókst aðeins að skora fjögur stig í opnum leik. Snæfell með algjöra yfirburði þar sem þær unnu fyrsta leikhlutann 8-20. Hildur með 8 stig og Helga með 7.
 
Eftir að hafa látið lítið fyrir sér fara í fyrsta leikhluta tók Chynna Unique Brown á skarið og var hún allsráðandi í sókn Snæfells og skoraði hún 13 stig í leikhlutanum. Ekkert gekk upp hjá Haukum og var snemma komin mjög róleg stemning yfir öllum leikmönnum hvort sem var í búðum Hauka eða Snæfells. Það var eins og bæði lið vissu að þetta væri búið og núna bara spurning um að spila út leikinn. Snæfell sigraði þennan leikhluta líka með 12 stigum eins og þann fyrsta og staðan því í hálfleik 19-43.
 
Þrátt fyrir bragðdaufan leik þá var hann ekki án atvika. Í einni sókn Hauka þá setti Jóhanna Björk Sveinsdóttir hindrun fyrir Brown sem reynir að komast undan henni með því að gefa háan olnboga sem fór í hálsinn á Jóhönnu. Ekkert dæmt og sókn Hauka hélt áfram. Þær skora ekki og eftir að Snæfell nær varnarfrákasti og er að leggja af stað í sókn taka dómararnir eftir því að Jóhanna er að labba hjá miðlínu vallarsins og á erfitt með andardrátt. Leikurinn stöðvaður og þeir ræða málin sín á milli og komast að niðurstöðu um að dæma óíþróttamannslega villu á Brown. Snæfell skoruðu annars að vild í leikhlutanum og unnu þær leikhlutann 15-31.
 
Fjórði leikhlutinn var lítil skemmtun nema fyrir þá sem fylgdust grant með málum í tölfræðinni en Hildur Sigurðardóttir komst yfir 10 stigin þegar þrjár og hálf mínúta voru til leiksloka og vantaði hana þá aðeins tvær stoðsendingar upp í þrefalda tvennu. Hún náði því miður ekki að bæta við stoðsendingum áður en hún var tekin útaf og varð því að “sætta” sig við 12/14/8 leik.
 
 
 
Mynd/ Axel Finnur – Chynna Unique Brown átti mjög góðan annan leikhluta
Fréttir
- Auglýsing -