U20 ára kvennalandslið Ísland tapaði í gær sínum fyrsta leik á Norðurlandamótinu sem fram fer í Kaupmannahöfn. Liðið mátti fella sig við eins stigs ósigur gegn Svíþjóð, lokatölur 70-69.
Sara Rún Hinriksdóttir minnkaði muninn í 70-69 þegar 43 sekúndur lifðu leiks og meira var ekki skorað. Eftir þetta voru m.a. sniðskot og vítaskot sem fóru forgörðum á báða bóga svo Svíar geta prísað sig sæla með að hafa sloppið með sigur í gær.
Sara Rún var atkvæðamest í íslenska liðinu með 18 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar og þá var Hallveig Jónsdóttir með 15 stig og Ingunn Embla Kristínardóttir bætti við 10 stigum og 5 fráköstum.
Á eftir kl. 14:00 að íslenskum tíma mætast svo Ísland og heimakonur í danskaliðinu. Danir mörðu sigur á Eistum í gær, 75-68.
*Við minnum einnig á að U20 ára liðið hefur tekið yfir Snapchat-reikning Karfan.is – fylgist með stelpunum en við heitum auðvitað bara Karfan.is á „Snappinu“
Mynd/ [email protected] – Sara Rún var stigahæst í íslenska liðinu í gær.



