Ísland lagði Ítalíu úti í Tortona í fyrsta leik sínum í undankeppni HM 2027, 76-81.
Leikurinn sá fyrsti hjá báðum liðum í undankeppninni, en í seinni leik sínum tekur Ísland á móti Bretlandi heima í Laugardalshöll komandi sunnudag.
Hérna er meira um leik kvöldsins
Hér fyrir neðan má sjá einkunnir leikmanna Íslands úr leiknum gegn Ítalíu:
Martin Hermannsson – 6
Erfiður dagur á skrifstofunni hjá Martin þó það kæmi ekki að sök í lokin. Barðist varnarlega en átti í vandræðum í sókninni þar sem blokkuð skot og tapaðir boltar réðu ríkjum. Martin verður væntanlega í aðalhlutverki þegar Ísland vinnur Breta á sunnudaginn.
Tryggvi Hlinason – 9
Frábær leikur hjá Tryggva, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hann lokaði teignum gjörsamlega varnarlega með sínum löngu norðlensku hrömmum og það var ekki við hann að sakast að það væri tekin sóknarfráköst fyrir aftan hann. Liðið er hálf týnt þegar hann sest á bekkinn og það er ekki ofsögum sagt að hann hafi verið lang-besti leikmaður vallarins á löngum köflum.
Elvar Friðriksson – 10 – Maður leiksins
Elvar Már steig heldur betur upp í kvöld og var allt í öllu í sókn íslenska liðsins. Hvort sem það var að keyra upp hraðann, skora mikilvæg stig í brakinu, skila niður vítum á ögurstundu eða taka stóra ruðninga í vörninni. Óaðfinnanlegur leikur hjá Elvari sem má fara helsáttur á koddann í kvöld.
Jón Axel Guðmundsson – 8
Var lengi í gang sóknarlega en stóð heldur betur fyrir sínu í vörninni. Steig upp á mikilvægum augnablikum sóknarlega í lokin og sýndi hvers hann er megnugur. Ómissanlegur hlekkur í sigrinum.
Haukur Helgi Briem Pálsson – 8
Haukur átti algerlega glimrandi leik varnarlega og var flottur hinum megin á vellinum framan af. Dró heldur af honum í seinni hálfleik og átti næstum því rándýra sendingu í lokin en slapp með skrekkinn. Þvílíkur Haukur í horni að hafa.
Orri Gunnarsson – 8
Fékk stórt hlutverk af bekknum í dag og skilaði því með miklum sóma. Setti skotin sín, spilaði hörku vörn og var óhræddur við að fara á körfuna þegar að þess þurfti. Var líka einn af þessum sem man að það er ekki bara Tryggvi sem á að stíga út.
Styrmir Þrastarson – 6
Fín innkoma hjá Styrmi sem gerði þó ekki mikið sóknarlega og lenti í vandræðum þeim megin. Var þeim mun betri í vörninni og stóð sig vel.
Ægir Steinarsson – 7
Ægir hafði temmilega hægt um sig mestmegnis í leiknum fyrir utan flottana kafla þar sem hann skoraði einhver 7 stig í röð og meiddist svo í kjölfarið. Vonandi nær hann að jafna sig fyrir sunnudaginn.



