07:00
{mosimage}
(Einar Árni og Örvar Kristjánsson með U 16 ára liðið í Solna á Norðurlandamótinu)
Íslenska U 16 ára liðið í karlaflokki hefur í dag ferðalag sitt áleiðis til Bosníu þar sem það mun leika í B-deild Evrópukeppninnar. Íslenska liðið er silfurlið Norðurlandamótsins sem fram fór í Solna fyrr á þessu ári en þar á bæ er Einar Árni Jóhannsson við stjórnartaumana. Karfan.is náði tali af Einari sem á föstudag mun stýra 16 ára liðinu gegn heimamönnum í Bosníu og verður leikurinn í beinni útsendingu í sjónvarpinu þar ytra. Íslenska liðið stendur vart úr hnefa hvað hæðina varðar gegn öðrum þjóðum en liðið sýndi það og sannaði á Norðurlandamótinu að hæðin er ekki allt í körfubolta. Einar leggur upp með hraðann og ógnandi leik fyrir utan þriggja stiga línuna ásamt pressu- og svæðisvörnum.
Hvernig leggst keppnin í þig og ertu sáttur við undirbúninginn?
Keppnin leggst bara vel í mig. Þetta er náttúrulega mikil reynsla fyrir hópinn að taka þátt í svona keppni og liðið spilar væntanlega 9 leiki á 10 dögum svo það verður nóg að gera. Undirbúningurinn hefur gengið vel. Við tókum þátt á Norðurlandamótinu í maí og fengum þá ágætismynd á hópinn. Í sumar höfum við æft vel og spiluðum nokkra óformlega æfingaleiki til að slípa liðið saman. Það sem hefur truflað okkur síðustu tvær vikur eru smá meiðsli á fjórum leikmönnum en það verða allir klárir þegar við mætum heimamönnum á föstudag, en sá leikur er í beinni útsendingu í sjónvarpinu þar.
Möguleikar U 16 liðsins, hvernig metur þú þá á jafn sterku móti?
Það er ofboðslega erfitt að segja. Við höfum séð U16 karla liðin ná góðum árangri á undanförnum árum (2004 komst liðið upp úr B deild (1988 árg), 2005 hélt liðið sér í A deild (1989 árg) og að sjálfsögðu stefnum við á að koma mönnum á óvart þarna úti. Ef við rýnum aðeins í riðilinn þá eru Danir með mjög gott lið sem við unnum í hörkuleik á NM, heimamenn eru væntanlega mjög sterkir sem og Svartfjallaland. Austurríkismenn og Hollendingar eru meira óskrifuð blöð en þar eru oftar en ekki stórir strákar. Hæðin er ekki með okkur frekar en fyrri daginn en með góðum varnarleik og trú á sjálfan sig getum við vel komið á óvart þarna úti.
Gerir þú ráð fyrir því að vera með miklu lágvaxnara lið en önnur rétt eins og var á NM í Solna?
Já það er meira og minna reglan þegar við erum að leika á erlendri grundu. Við höfum reyndar óvenju litla hæð í þessu liði en á móti erum við með marga öfluga bakverði og getum spilað hratt á móti þessum stórum strákum.
Hvernig leggur þú leik strákanna upp, á að hleypa þessu upp í mikinn hraða og pressa stíft?
Við erum í raun að horfa í að bæta bara við það sem lagt var upp með fyrir NM. Við beittum hraða sóknarlega og vorum alltaf ógnandi fyrir utan 3ja stiga línuna. Varnarlega höfum við verið að pressa og jafnframt spilað töluvert svæðisvarnir og það hefur gengið fínt hingað til.
Þið voruð grátlega nærri því að vinna NM eftir úrslitaleik gegn Svíum, eigum við von á því að sjá liðið blanda sér í toppbaráttuna í riðlinum?
Já við vorum ansi nálægt því að klára NM með stæl og liðið spilaði frábærlega gegn bæði Svíum og Dönum og þrátt fyrir að tapa úrslitaleik gegn Svíum þá var maður svona heilt yfir ánægður með spilamennsku liðsins. Varðandi EM þá held ég að það sé best að taka einn dag í einu. Þetta er langt mót og við þurfum bara að fókusa á einn leik í einu og við sjáum þetta betur eftir 2-3 leikdaga þegar við höfum séð meira til liðanna. Riðillinn okkar er sterkur svo ef við náum góðum úrslitum í honum þá held ég að allir vegir séu færir.
Riðill Íslands í Bosníu
Ísland
Bosnía
Austurríki
Holland
Svartfjallaland
Danmörk
Í B-deildinni eru fjórir riðlar og leikur Ísland í riðli B. Riðlaskipanin er eftirfarandi.
Riðill A
Lúxemborg
Eistland
Belgía Þýskaland
Slóvakía
Hvíta Rússland
Riðill B
Ísland
Bosnía
Austurríki
Holland
Svartfjallaland
Danmörk
Riðill C
Rúmenía
Búlgaría
England
Slóvenía
Kýpur
Sviss
Riðill D
Makedónía
Finnland
Svíþjóð
Portúgal
Írland



