13:22
{mosimage}
(Einar Bollason ásamt ungum aðdáanda sem gengur undir nafninu Ingvar ,,byssa“)
,,Mér leiddist sko ekki en ég átti mjög erfitt með mig,“ sagði gamla körfuboltakempan Einar Bollason í samtali við Karfan.is í DHL-Höllinni eftir að hans menn í KR tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild karla.
,,Það eina sem vantar í KR heimilið er sjálfsali með hjartasprengitöflum, slík var spennan í oddaleiknum. Þetta var alveg rosalegt og leikurinn var bara stórkostlegur. Mínir menn voru aldrei undir í leiknum nema eftir fyrstu körfun og náðu 15 stiga forystu en Grindvíkingar hreinlega neituðu að gefast upp,“ sagði Einar kátur í bragði í KR mannhafinu sem fagnaði á gólfinu í DHL-Höllinni.
,,Þessi tvö lið eru líklegast tvö bestu liðin sem spilað hafa á Íslandi síðan ég var í boltanum,“ sagði Einar og hló dátt en gerðist svo öllu alvarlegri: ,,Þetta eru tvö frábær lið og hinn eiginlegi sigurvegari er körfuboltinn á Íslandi og að fá svona oddaleik er náttúrulega bara stórkostlegt þannig að ég er mjög stoltur,“ sagði Einar og bauð upp á sterka fullyrðingu: ,,Ég held að það hafi aldrei áður sterkara lið tapað Íslandsmeistaratitli og Grindavík gerði í þessari seríu og í sjálfu sér var það synd að annað liðið þyrfti að tapa,“ sagði Einar Bollason sem varð tvöfaldur meistari með KR fyrir akkúrat 30 árum síðan eða árið 1979.



