spot_img
HomeFréttirEinar Árni tekur við Þór Þorlákshöfn

Einar Árni tekur við Þór Þorlákshöfn

Einar Árni Jóhannsson tók í dag við Þór Þorlákshöfn og mun stýra liðinu næstu þrjú árin. Einar Árni sem þjálfaði Njarðvíkinga á síðasta tímabili er starfandi yfirþjálfari yngri flokka í Njarðvík sem og yfirþjálfari íslensku yngri landsliðanna. Einar segir því skilið við uppeldisklúbbinn að sinni og gerist tíður gestur á Suðurstrandarveginum.

„Ákvörðunin var í raun gríðarlega erfið. Raunin er sú að eg hef alveg fundið sterka löngun til að starfa áfram á vettvangi meistaraflokksins í vetur og þegar tækifæri þess efnis komu þurfti að hugsa hlutina vel og vandlega. Að yfirgefa uppeldisfélagið er mjög snúið þar sem mér hefur liðið mjög vel þar og þar hef ég starfað með fjölda af öflugu fólki, bæði í stjórnum og svo þjálfurum félagsins. Umfram allt er bara virkilega erfitt að skilja við frábæra iðkendur sem hefur verið ótrúlega gaman að vinna með,“ sagði Einar og var óspar á lofið í garð Benedikts sem sagði nýverið skilið við Þorlákshafnarliðið.

„Þór er virkilega flott félag sem heillar mig fyrir margra hluta sakir. Benni vinur minn hefur gert frábæra hluti þarna s.l. 5 ár og það er krefjandi verkefni að fylgja því eftir. Félagið á flottan kjarna heimastráka sem að ég þekki nokkuð vel, hafandi starfað með þeim þónokkrum í yngri landsliðunum.  Liðið missir reyndar lykilmenn eins og Tómas Heiðar og Nemanja og ljóst að við stefnum á að styrkja liðið. Það er metnaður í Þorlákshöfn til þess að halda áfram að bæta í svo ég fer fullur tilhlökkunar inn í þetta verkefni.“

Samhliða ráðningu Einars Árna hefur verið samið við heimamenn í meistaraflokksliði Þórs. Baldur Þór var ráðinn sem styrktarþjálfari og aðstoðarþjálfari meistaraflokks. En einnig eru Grétar Ingi, Þorsteinn Már og Emil Karel tilbúnir í slaginn næsta vetur.

Mynd af Facebook-síðu Þórs – Einar Árni lét blek á blað í Þorlákshöfn í dag. 

Fréttir
- Auglýsing -