spot_img
HomeFréttirEinar Árni sagði árin þrjú hjá Hetti hafa verið frábær "Framtíðin er...

Einar Árni sagði árin þrjú hjá Hetti hafa verið frábær “Framtíðin er björt á Héraði”

Einar Árni Jóhannsson annar tveggja þjálfara Hattar síðustu tímabil þjálfaði liðið í síðasta skipti í gær er liðið laut í lægra haldi gegn Val í átta liða úrslitum Subway deildar karla. Undir stjórn Einars Árna, og Viðars Arnar Hafsteinssonar sem mun áfram vera með liðið, náði Höttur sögulegum árangri, er það hélt sæti sínu í deildinni og fór í undanúrslit bikarkeppninnar á síðasta tímabili og á þessu tímabili fór Höttur í fyrsta skipti í úrslitakeppni Subway deildarinnar.

Karfan hafði samband við Einar Árna og spurði hann út í tíma sinn fyrir austan og hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Afhverju ákveður þú að segja skilið við Hött núna?

“Það eru fjölskylduástæður. Hefur ekkert með körfubolta að gera og mér þótti afar erfitt að taka þá ákvörðun að yfirgefa Hött, og vinnustaðinn minn Fellaskóla í Fellabæ að þessum vetri loknum.”

Hvernig metur þú tíma þinn hjá félaginu?

“Þetta hafa verið þrjú frábær ár.  Það eru forréttindi að vinna hjá félagi sem er með öfluga og ábyrga stjórn, geggjaða stuðningsmenn og svo gríðarlega metnaðarfulla leikmenn bæði í meistaraflokki og yngri flokkum.  Svo er öflugur hópur foreldra sem að tekur virkan þátt í starfinu með krökkunum, sem hefur verið vaxandi frá ári til árs.” 


“Að vinna sig upp í úrvalsdeild á fyrsta ári, hafa náð að brjóta ísinn og halda sér þar uppi í fyrsta sinn og komast í 4 liða úrslit í bikar á öðru ári og svo í ár að tryggja sér sæti í úrslitakeppni og upplifa andrúmsloftið í MVA höllinni í síðustu leikjum hefur bara verið frábært.” 


“Það var margt sem heillaði við það að koma austur á Hérað og stór þáttur í því var að fá tækifæri að vinna með vini mínum, Viðari Erni, í því að halda áfram að gera gott félag enn betra.  Starfið í yngri flokkum hefur vaxið mikið og iðkendur farið úr rétt rúmlega 100 og yfir 200 á þessum þremur árum.  Þar spilar inn í stöðugleikinn, öflug stjórn, góður hópur metnaðarfullra þjálfara og árangur meistaraflokks hefur klárlega haft sín áhrif.  Framtíðin er björt á Héraði.”

Hvert sérðu fyrir þér að fara næst?

“Ég held áfram að þjálfa. Er rétt að byrja í þessu – að klára ár númer 30. Ég geri ráð fyrir að mín mál skýrist endanlega á næstunni.”

Fréttir
- Auglýsing -