„Það verður að segjast að allar líkur eru á því að KR verði Íslandsmeistari í dag. Fyrstu rök eru einfaldlega styrkur þeirra á heimavelli á síðustu þremur tímabilum. Ef ég man rétt er þetta einn tapleikur (gegn Stjörnunni í deildarleik í vetur). Þeir hafa oft klórað sig út úr erfiðum aðstæðum þar sem spilamennskan hefur ekki verið neitt sérstök en gangurinn á þeim um þessar mundir er góður og ég sé þá ekki tapa í DHL,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórs Þorlákshafnar um þriðja úrslitaleik KR og Hauka í Domino´s-deild karla í kvöld.
Einar Árni mátti fella sig við að detta út í 8-liða úrslitum gegn Haukum en Karfan.is fékk hann til að leggja mat á viðureign kvöldsins.
„Haukar hafa verið hrikalega flottir í þessari úrslitakeppni og sýnt mikinn styrk þrátt fyrir áföll. Kári Jónsson er þó liðinu gríðarlega mikilvægur og það er að reynast þeim erfitt á sóknarvelli að vera án hans enda að mínu viti þeirra besti maður. Fjarvera Kára gerir þetta alltaf erfitt svo þar höfum við punkt tvö í rökum fyrir KR sigri.
Ef við horfum aftur í KR að þá er ofboðsleg reynsla í þeirra liði. Craion er öllum erfiður í teignum og KR hleypur "pick n roll" betur en nokkurt annað lið á Íslandi. Vopnabúr þeirra er bara svo þétt. Menn eins og Pavel, Brynjar og Helgi hafa mikla reynslu og gæði og svo finnst mér Darri hafa verið magnaður fyrir þá í þessari úrslitakeppni og myndi segja að hann væri X-factorinn. Björn, Snorri og Þórir þekkja sína rullu svo vel og hafa komið með gott framlag af bekk. Spilamennska þeirra í oddaleik gegn Njarðvík og svo aftur í leik eitt gegn Haukum segja mikið til um gæði þeirra og styrk.
Ég ætla að loka þessu á því að segja bara eins og er að ég tel að KR liðið sé í raun þeir einu sem gætu komið í veg fyrir að sá stóri fari á loft í kvöld, og þá á ég við með einhverju slæmu hugarfari og kæruleysi En ég bara sé það ekki frá þessu gríðarlega sterka og reynda liði, sem að langar mikið að klára á sínum heimavelli sem gerðist síðast 2009.
Finnur, Skúli og KR liðið hafa unnið vel úr sínu. Þeir gerðu vel án Pavel og Helga lengi vel og hafa áfram sýnt styrk sinn þrátt fyrir brotthvarf Ægis, sem var hreint út sagt magnaður með þeim í vetur. Haukar hafa tekið flott skref fram á við þrjú tímabil í röð og eiga líka hrós skilið fyrir sína frammistöðu.“
Mynd/ Bára Dröfn