spot_img
HomeFréttirEinar Árni: Fyrir suma er þetta ekkert val!

Einar Árni: Fyrir suma er þetta ekkert val!

10:42
{mosimage}

(Einar Árni)

Karfan.is náði tali af Einari Árna Jóhannssyni nú rétt í þessu en Blikar voru að tilkynna að þeir hefðu sagt upp samningum sínum við þá Igor Beljanski og Darrell Flake. Einar segir að málið snúist nú um að margar körfuknattleiksdeildir haldi rekstrargrundvelli sínum eftir veturinn og hann er sannfærður um að sínir menn þjappi sér saman og leggji allt sitt í baráttuna.

Hver eru þín viðbrögð við þessum stóru tíðindum úr íslenska boltanum?
Það er vissulega leiðinlegt að svona sé komið fyrir þjóðinni og sömuleiðis leiðinlegt fyrir erlenda leikmenn og liðin að til þessa þurfi að koma.

Áttu von á því að fleiri lið tilkynni viðlíka aðgerðir á næstu dögum?
Ég verð ekki hissa ef það verður raunin. Staða mála í þjóðfélaginu er þessleg að það verður mjög erfitt að reka deildirnar og fyrir suma er þetta ekkert val úr því sem komið er.

Mun þetta draga úr gæðum deildarinnar eða fá minnispámenn nú tækifæri til að láta ljós sitt skína?
Gæði deildarinnar eru fyrir mér aukaatriði á þessum síðustu og verstu. Snýst meira um að félögin haldi velli og hafi rekstrargrundvöll eftir veturinn. Vissulega fá íslenskir leikmenn stærri tækifæri og tel ég það fagnaðarefni þó vissulega sé eftirsjá af góðum erlendum leikmönnum sem hafa fallið vel inn í hópa liðanna.

Staða nýliðanna nú. Eigið þið erindi í efstu deild án erlendra leikmanna?
Við höfum búið okkur undir erfiðan vetur í allt sumar og haust, vitandi það að það yrði barningur að halda sæti okkar í deildinni. Ég er sannfærður um að mínir drengir munu þjappa sér saman og leggja allt sem þeir eiga í baráttuna hverju sinni. Þetta verður eðlilega áfram gríðarlega erfið barátta en maður á eftir að sjá hvort það fari fleiri félög í þessar aðgerðir nú þegar ÍR, Snæfell og Breiðablik hafa sent alla sína erlendu leikmenn heim. Hvort við eigum erindi verður bara að koma í ljós. Við ætlum að hafa gaman af þessu og gera okkar besta, og ég bið ekki um mikið meira. Hvar það skilar okkur svo í töflunni verður bara að koma í ljós.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -