Það er svosem ekki að sjá að þessi 36 ára gamli Lakers stjarna sem er búin að vera 19 ár í deildinni og sé að finna fyrir þreytu eða niðurbroti líkamans. Kobe Bryant sleit hásin á síðustu leiktíð og var frá ansi lengi. Margir íþróttamenn hafa ekki snúið aftur eftir slík meiðsli og hvað þá snúið aftur með góðum árangri. Sá eini sem ég get nefnt hér og nú er Dominique Wilkins, sem snéri aftur eftir hásinarslit 32 ára og var með 30 stig að meðaltali í leik árið eftir.
Við getum ekki búist við því sama frá Kobe í ár en hann virðist vera mjög meðvitaður um hvað hann getur gert og gerir það miklu miklu betur en flestir aðrir. Mikið er talað um þessa viðsnúningstroðslu hans í andlitið á Matt Barnes í nótt en hún kemur mér ekki mikið á óvart. Það vita allir að hann getur troðið ef hann færi greiða leið að körfunni.
Ef þið t.d. horfið á þetta myndband hér að neðan sem sýnir alla frammistöðu Kobe í leiknum gegn Clippers þá sjáið þið hvað hann gerir miklu meira. Takið t.d. eftir körfunni sem hann skorar á 2:35. Sogar inn tvídekkun frá Griffin og Barnes, snýr þá af sér og hangir nógu lengi í loftinu til að skilja Jordan eftir clueless að lemja í spjaldið á meðan hann leggur hann ofan í með kossi af spjaldinu hinu megin við hringinn. Vinnan og álagið á skrokkinn í þessari hreyfingu er margfalt á við það sem gekk á í þessari troðslu.
Hefði hann verið 5-10 árum yngri væri Jordan enn að nudda Spalding merkið af enninu á sér því hann hefði einfaldlega neglt þessari í grillið á honum.
En þetta er það sem snillingar gera. Nýta það sem þeir hafa til hins ýtrasta.



