Stjarnan hafði betur gegn Tindastóli í Umhyggjuhöllinni í kvöld í öðrum leik úrslita Bónus deildar karla, 103-74. Staðan í einvíginu er því jöfn 1-1, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Karfan spjallaði við Hlyn Bæringsson eftir frábæran risasigur á Stólunum:
Jæja Hlynur…til hamingju með geggjaðan sigur!
,,Já, takk.“
Ég verð að segja að ég sá það bara alls ekki gerast að ykkur myndi takast að brjóta þetta sterka Stólalið…
,,Nei…það kom móment þarna í seinni hálfleik þar sem við einfaldlega fórum með þetta upp í 20 og eftir það var bara allt mómentið með okkur og við vorum ekki að fara að klúðra þessu í dag.“
Nei, einmitt. Í hálfleik þá var eins stigs munur…og það var kannski pínu blekkjandi fyrir þá að þið voruð að skjóta 16% í þristum í fyrri hálfleik og ekkert sérstaklega vel í tveggja stiga heldur…svo fór það aðeins að lagast þarna í þriðja og þá stunguð þið þá hreinlega af!
,,Já, við töluðum nákvæmlega um þetta í hálfleik, við vorum bara með einhver 34 stig í hálfleik. En það var ekki útaf því að við vorum að taka svo erfið skot, við vorum bara að klikka á tiltölulega góðum skotum. Ef við erum að láta boltann flæða, hreyfa hann hratt á milli kanta þá fáum við alltaf góð skot, það er bara þannig.“
Hlynur, aðeins um þig persónulega, nú hefur þú gefið það út að þú ætlir að hætta eftir þetta tímabil, það hlýtur að vera svolítið sérstakt en líka frábært fyrir þig að fá tækifæri núna til að enda þetta með titli…?
,,Jájá, það er mjög sérstakt að vita af því en ég er að reyna að bægja því bara frá mér, bara spila til að vinna…“
…já…ekki láta þá hugsun trufla þig…?
,,…nei…ég er bara í stríði og vil bara vinna leikina sko, vinna titilinn. Það er bara það sem ég stefni að. En ég viðurkenni það alveg að þetta er svolítið spes, auðvitað er þetta svolítið spes tilfinning. Ég er búinn að vera í þessu í einhver 30 ár líklega og karfan hefur dominerað allt sem ég geri, allt sem ég geri í lífinu er einhvern veginn tengt þessu, eða svona langflest að minnsta kosti.“
Akkúrat. Þú hefur verið að koma inn á fyrr og spilað meira núna í úrslitakeppninni en fyrr á tímabilinu. Þú ert náttúrulega með gríðarlega reynslu og ert ekkert hræddur við að koma inn á…!?
,Neinei, auðvitað vil ég vera inn á skiluru! En samt vil ég að Shaq haldist inn á vellinum, það hafa stundum verið villuvandræði hjá honum og þannig. Hann spilar af mikilli orku, þá verður hann að hafa einhvern skiptimann sko, hann getur ekki spilað 40 mínútur. Hann þarf að passa hringinn, spretta upp og hann er stundum að dekka alls konar menn, ekki bara stóru gaurana, hann er að skipta á Basile t.d. og hann þarf smá pásu. En auðvitað er skemmtilegra að spila og ég vil alltaf vera inná, það er bara þannig!“
Nákvæmlega! Þið þurfið að taka leik á Króknum…það hlýtur að hjálpa ykkur svona andlega að slátra þessum leik og sömuleiðis að hafa verið svo nálægt því að vinna fyrsta leikinn?
,,Við erum bara með sjálfstraust, þeir auðvitað líka en við erum með sjálfstraust sem lið. Það er talað um þetta eins og að við eigum ekki að eiga séns og eitthvað svoleiðis. En við erum bara það sem við erum, við erum bara gott lið, við erum samstilltir og vel þjálfað lið, og við treystum bara á að við getum fundið einhverjar lausnir. Þeir gera væntanlega það sama og fara heim og finna eitthvað.“
Jájá vissulega, en þetta er bara geggjað og þvílík skemmtun!
,,Þetta er bara gaman!“