Haukar rúlluðu yfir ÍR í Hertz-hellinum í kvöld, lokatölur 87-113, Kári nokkur Jónsson gerði 28 stig í leiknum með frábæra nýtingu, 5/6 í teignum og 6/6 í þristum, 4 fráköst, 1 stoðsendingu og tvo stolna bolta, engan tapaðan og 34 framlagsstig. Hann varð 16 ára í ágúst síðastliðnum!
Fyrir Hafnfirðingum þarf vart að kynna Kára Jónsson en fjölskylda pilts hefur um áratugaskeið lagt sín lóð á körfuboltavogarskálarnar en faðir hans og föðurbróðir (Jón Arnar og Pétur Ingvarssynir) léku báðir með Haukum og á tíma undir stjórn föður síns, afa Kára, Ingvars Jónssonar.
Nú ef frammistaða Kára er ekki enn farin að heilla þá gerði hann þetta allt saman á undir 19 mínútum í kvöld!
Þá skal því einnig haldið til haga að Kristján Leifur Sverrisson skoraði sín fyrstu stig í íslensku úrvalsdeildinni í kvöld en hann fékk tæpar 10 mínútur af tréverkinu hjá Ívari Ásgríms og skilaði þar fjórum stigum og 3 fráköstum. Þá skoraði Hjálmar Stefánsson einnig sín fyrstu stig í úrvalsdeildinni en báðir eru þeir Kristján og Hjálmar fæddir árið 1996.
Mynd/ Kári Jónsson hefur verið á meðal bestu leikmanna yngri flokkanna síðustu ár en er nú kominn á stóra sviðið.



