spot_img
HomeFréttirEf þú ert nógu góður, ertu nógu gamall

Ef þú ert nógu góður, ertu nógu gamall

 

Keflavík sigraði Snæfell, 67-61, í öðrum leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Keflavík því komið með tvo sigra og freistar þess að klára titilinn komandi sunnudag í Stykkishólmi.

 

 

Sveiflan

Eins og Karfan.is hafði orð á fyrir leik dagsins. Þá hafa leikir þessara liða verið einkar spennandi þennan veturinn. Snæfell vann fyrstu þrjá leikina (allir í deild), en Keflavík hefur nú unnið síðustu þrjá (þann síðasta í deild og fyrstu tvo í úrslitum) Þetta hafa ekki verið stórir sigrar. Fyrir utan síðasta leik liðanna í deildarkeppninni hafa allir leikirnir unnist með 7 stigum eða færri. 

 

 

Gangur leiks

Keflvík byrjaði leik kvöldsins af krafti, voru komnar með 9 stig forystu eftir aðeins fjórar mínútur, 14-5. Gestirnir voru þó snöggir að taka við sér og jöfnuðu leikinn, 14-14, á næstu þrem mínútum. Þegar að fyrsti leikhluti var á enda var Keflavík með forystuna 24-20.

 

Í öðrum leikhlutanum er leikurinn svo áfram jafn og spennndi, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik eru heimstúlkur enn með forystuna, 40-36. Atkvæðmest fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Ariana Moorer með 14 stig og 5 fráköst á meðan að fyrir Snæfell var það Aaryn Ellenberg-Wiley sem dróg vagninn með 8 stigum, 5 fráköstum og 6 stoðsendingum.

 

Í þriðja leikhlutanum heldur þessi eltingaleikur liðanna áfrm. Keflavík leiðir, en gestirnir aldrei langt undan. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 53-47.

 

Í upphafi fjórða leikhlutans gera gestirnir sig líklega til þess að taka forystuna. Ná svo loksins að komast yfir þegar um fjórar mínútur voru eftir af leiknum með þriggja stiga körfu frá Bryndísi Guðmundsdóttur, 57-58. Lengra komust þær þó ekki. Forystan entist þeim í aðeins 46 sekúndur. Keflavíkurstúlkur héldu haus báðumegin á vellinum og sigldu góðum 67-61 sigri í höfn.

 

Heimavöllurinn

Besti leikmaður Snæfells í kvöld var fyrrum Keflvíkingurinn Bryndís Guðmundsdóttir. Á rúmum 34 mínútum spiluðum í leiknum skoraði hún 22 stig og tók 8 fráköst. Það er greinilegt að Bryndísi líður enn vel á parketinu í Keflavík, en leiðinlegt fyrir lið Snæfells að geta ekki nýtt sér það til sigurs í kvöld.

 

 

Ef þú ert nógu góður, ertu nógu gamall

Þetta hefur oftar en ekki verið sagt um hið unga lið Keflavíkur í vetur. Einhverjar vangaveltur voru þó um hvort, þegar á stóra svið úrslitanna væri komið, þetta ætti ennþá við? Þær hafa svo sannarlega fært sín rök fyrir að svo sé. Að fara á erfiðan útivöll Snæfells, sigra og taka svo næsta leik heima í Keflavík er ekkert annað en reynsla. Hvaðan hún kom í þetta unga lið er raunveruleg ráðgáta. Þær eru hæfileikaríkar, tilbúnar og umfram allt þolinmóðar á að sá leikur sem þær spili skili þeim sigri. 

 

Hjálp af tréverkinu

Það er gríðarlegur munur á breidd þessara tveggja liða. Keflavík virðist vera að fá mun meira frá sínum varamönnum heldur en Snæfell. Í leik kvöldsins fá þær t.a.m. 22 stig gegn aðeins 8 stigum bekkjar Snæfells. 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting Snæfells var ekkert sérstök í þessum leik. Þær fá 11 skotum fleiri heldur en Keflavík í leiknum en tapa honum samt sem áður með 6 stigum. Skotnýting Keflavíkur var 43% á móti aðeins 33% hjá Snæfell.

 

Hetjan

Leikmenn Keflavíkur voru nokkrir mjög góðir í kvöld. Ef einhverja eina ætti að taka út, þá er alveg í lagi að benda á framlag Salbjörgu Rögnu Sævarsdóttur. Þó hún hafi aðeins skorað 6 stig í leiknum, þá tók hún einnig 8 fráköst, gaf 5 stoðsendingar, varði 2 skot og stal einum bolta. Ofan á þetta spilaði hún frábæra vörn í þær 27 mínútur sem hún spilaði í leiknum.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn #1 (Davíð Eldur)

Myndasafn #2 (SBS)

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur

 

Viðtöl

Fréttir
- Auglýsing -