spot_img
HomeFréttirEC Matthews hetja Grindavíkur er þeir jöfnuðu einvígið gegn Íslandsmeisturum Þórs

EC Matthews hetja Grindavíkur er þeir jöfnuðu einvígið gegn Íslandsmeisturum Þórs

Það var allur körfuboltapakkinn í boði í Grindavík í kvöld þegar heimamenn unnu sigur á Íslandsmeisturum Þór úr Þorlákshöfn, 86 – 85, í öðrum leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Staðan er því jöfn og báðir leikirnir hafa verið spennandi og skemmtilegir.


Það var algjör háspenna/lífshætta undir lok leiksins; EC Matthews – hinn stórkostlegi leikmaður Grindvíkinga, skoraði úr tveggja stiga skoti, síðustu stig leiksins, þegar einungis 3.24 sekúndur lifðu leiks.
Þórsarar tóku leikhlé og tóku svo boltann inn við miðlínu og þá fékk Luciano Massarelli nokkuð opið skot, en boltinn vildi ekki ofan í þótt ekki hefði miklu mátt muna.


Góður sigur heimamanna staðreynd og áframhaldandi barátta þessara liða heldur áfram í þriðja leiknum sem fram fer í Þorlákshöfn á þriðjudaginn.


Þessi leikur var frábær; eins og leikir í úrslitakeppninni eiga hreinlega að vera; gífurleg barátta og vilji á báða bóga – flott tilþrif í vörn og sókn og svo brjáluð spenna í lokin; einfaldlega ekki hægt að fara fram á meira.


Grindvíkingar voru ákveðnir að gefa ekkert eftir strax frá byrjun, og það sást langar leiðir að þeir ætluðu að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að fara ekki í þriðja leikinn tveimur leikjum undir. Og það gekk eftir.
Ivan Alcolado var gífurlega sterkur í þessum leik, og þá sérstaklega þegar haft er í huga að hann er meiddur og hann þurfti að eiga við tvo stóra og stæðilega Þórsara, Ronaldas Rutkauskas og Daniel Mortensen, sem börðu stundum ansi hressilega á Spánverjanum, sem var orðinn ansi þreyttur og pirraður þegar leið að leikslokum. En þessi strákur er hins vegar frábær körfuboltamaður, hvort sem er í vörn og sókn. 


EC Matthews var eins og oft áður svakalega góður; frábær sóknarmaður og þá er hann einnig grjótharður í vörninni. Og svo er hann líklega besti “slúttarinn” í deildinni; ekkert lið vill að Grindvíkingar fái lokasóknina í jöfnum leik, því líkurnar á að EC skori á ögurstundu eru ansi hreint miklar, og það gerði hann í kvöld með stæl.


Naor Sharabani var sterkur: Baráttuglaður og mjög svona jafn leikmaður sem virðist alltaf skila sínu, og oft gott betur en það.


Ólafur Ólafsson fann sig engan veginn í skotum sínum, en bætti það allhressilega upp með rosalegri baráttu; kastaði sér á eftir öllum boltum og hreinlega teymdi sína menn áfram í orrustunni – alvöru maður, Ólafur Ólafsson.


Hjá Þór kviknaði vel á gömlu stigamaskínunni Kyle Johnson, sem með leik sínum í síðari hálfleik nánast hélt Þórsurum á tímabili gangandi með hverri körfunni á fætur annarri. Ekki dauður enn.


Luciano Massarelli var sprækur hjá gestunum, og þá unnu þeir Ronaldas Rutkauskas og Daniel Mortensen vel fyrir kaupinu sínu í kvöld. Glynn Watson var einnig góður; leikmaður með svakalegan hraða og frábærar hreyfingar sem gleðja alla áhorfendur.


Vonandi halda þessu veisluhöld bara áfram!

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

Fréttir
- Auglýsing -