Skallagrímur sigraði Keflavík í hörkuspennandi leik sem fram fór í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi í kvöld. Jafnfræði var með liðunum í upphafi leiks og voru Keflvíkingar skrefinu framar en heimamenn með sprækum sóknarleik sínum. Borgnesingar hrukku hins vegar í gang og fyrr en varði var jafnt með liðunum. Gestirnir voru þó skrefinu framar og voru yfir að loknum fyrsta leikhluta 22:23. Skallgrímsmenn sóttu í sig veðrið í öðrum leikhluta og náðu fljótlega yfrhöndinni undir forystu Páls Axels Vilbergssonar og Carlos Medlock. Keflvíkingar höfðu fá svör við sprækum heimamönnum sem uppskáru átta stiga hálfleiksforystu, 44:36.
Síðari hálfleikur fór rólega af stað. Borgnesingar héldu uppteknum hætti frá öðrum leikhluta og héldu forystunni í tíu stigum þegar þriðja leikhluta lauk. Keflvíkingar mættu grimmir til leiks í fjórða leikhluta staðráðnir í að minnka muninn. Þeir hrundu af stað sóknaráhlaupi og hélt föst og góð vörn þeirra Borgnesingum í skefjum. Mikil barátta einkenndi leik beggja liða og þurftu mikilvægir menn í báðum liðum að yfirgefa völlinn með fimm villur, Hörður Hreiðarsson hjá Skallagrím og Billy Baptist hjá Keflavík. Þegar tæplega tvær mínútur lifðu eftir af leiknum náðu gestirnir að jafna metin og staðan þar með 68:68.
Pálmi Sævarsson þjálfari Skallagríms tók leikhlé á þessu augnabliki og lagði línurnar fyrir sína menn sem voru komnir á undanhald í leiknum. Sú hvatning skilaði sér strax í fyrstu sókn þar sem Páll Axel skellti niður mikilvægum þrist og kom Borgnesingum þremur stigum yfir 71:68. Keflvíkingar hröðuðu sér í sókn en fengu dæmdan á sig ruðning og misstu boltann. Borgnesingar skunduðu fullir sjálfstrausts í næstu sókn þar sem brotið var á Carlos Medlock. Fékk hann tvö vítaskot sem hann setti niður af miklu öryggi og kom þannig forskoti heimamanna í fimm stig, 73-68. Skemmst er frá því að segja að Keflvíkingar komust ekki lengra og náðu Skallagrímsmenn að skora lokastig sín af vítalínunni. Lokastaðan 75:68.
Með sigrinum styrktu Skallagrímsmenn stöðu sína í áttunda sæti Dominos deildar karla. Liðið hefur nú 14 stig og er tveimur stigum á undan Tindastól sem er í níunda sæti. Sigurinn er afar þýðngarmikill fyrir þá gulu og grænu í átökunum sem eru framundan um sæti í úrslitakeppninni og færir liðið um leið nokkuð frá botnbaráttunni. Keflvíkingar sitja hins vegar sem fastast í fjórða sæti deildarinnar með 24 stig.
Fremstir í liði Borgnesinga í leiknum voru Carlos Medlock, Páll Axel Vilbergsson og Sigmar Páll Egilsson, en þó verður ekki annað sagt að allir leikmenn þeirra sem komu við sögu í leiknum börðust eins og ljón og skiluðu drjúgu framlagi í ýmsu formi. Hjá gestunum, sem léku án Magnúsar Gunnarssonar í leiknum, voru þeir Darrel Lewis og Michael Craion allt í öllu.
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ HLH
Staðan í deildinni
| Deildarkeppni | |||
| Nr. | Lið | U/T | Stig |
|---|---|---|---|
| 1. | Grindavík | 14/4 | 28 |
| 2. | Þór Þ. | 13/5 | 26 |
| 3. | Snæfell | 13/5 | 26 |
| 4. | Keflavík | 12/6 | 24 |
| 5. | Stjarnan | 11/7 | 22 |
| 6. | KR | 10/8 | 20 |
| 7. | Njarðvík | 9/9 | 18 |
| 8. | Skallagrímur | 7/11 | 14 |
| 9. | Tindastóll | 6/12 | 12 |
| 10. | KFÍ | 5/13 | 10 |
| 11. | Fjölnir | 4/14 | 8 |
| 12. | ÍR | 4/14 | 8 |



