spot_img
HomeFréttirDýrkeyptur sigur Lakers, Bynum meiddist aftur

Dýrkeyptur sigur Lakers, Bynum meiddist aftur

11:49:45
LA Lakers unnu í nótt seiglusigur, 115-98,  á Memphis Grizzlies sem töpuðu um leið sínum 12 leik í röð. Sigurinn gæti hins vegar orðið þeim dýrkeyptur því að miðherjinn Andrew Bynum tognaði á hné og verður sennilega frá keppni í nokkurn tíma. Þetta vekur upp skelfilegar minningar fyrir Lakers og stuðningsmenn þeirra því að um sama leyti í fyrra hlaut hann einnig hnémeiðsl sem bundu enda á þátttöku hans á því tímabili. Telja margir m.a. að hann hafi getað skipt sköpum í úrslitarimmunni gegn Boston Celtics um vorið þar sem erkifjendurnir nýttu sér miskunnarlaust yfirburði sína í teignum.

 

Ítarleg umfjöllun um leiki næturinnar hér að neðan…

Memphis Grizzlies – LA Lakers 98-115

Bynum, sem hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum síðustu vikurnar, hlaut meiðslin í fyrsta leikhluta, þegar Kobe Bryant lenti á honum eftir misheppnað gegnumbrot, og kom ekki meira við sögu í leiknum. Grizzlies nýttu sér áfall Lakers og tóku frumkvæðið í leiknum. Þeir náðu mest 13 stiga forskoti í fyrri hálfleik, en þegar Bryant, Pau Gasol og Lamar Odom komust í gírinn dökknaði útlitið jafnt og þétt fyrir Memphis. Lakers skoruðu m.a. tíu stig í röð undir lok þriðja leikhluta og kláruðu leikinn af öryggi.

Grizzlies voru, þrátt fyrir tapið, að leika léttari bolta undir nýjum þjálfara, Lionel Hollins, en þeir hafa áður gert en hafa ekki enn náð að fínslípa leikaðferðina, auk þess sem þeir mættu gríðarsterku liði Lakers.

Kobe Bryant var stigahæstur Lakers með 25 stig og Pau Gasol var með 24. Rudu Gay var með 23 fyrir Memphis og OJ Mayo með 21. Leikstjórnandinn Mike Conley, sem vonast til að koma ferli sínum í gang undir stjón Hollins, var með 13 stig og sjö stoðsendingar.

San Antonio Spurs – New Orleans Hornets 106-93

San Antonio lögðu New Orleans í einvígi efstu liðanna í Suð-Vesturriðli NBA í nótt og komu sér í góða stöðu fyrir langa útileikjahrinu. Annað einvígi fór líka fram á vellinum, en það var á milli stjörnuliðssleikstjórnendanna Chris Paul og Tony Parker. Paul hafði betur í einstaklingskeppninni, með 38 stig, en Parker er eflaust sáttur við sigurinn.

Spurs voru alltaf skrefinu á undan, en Hornets létu dómarana fara í taugarnar á sér og söfnuðu tæknivillum ótt og títt.

Parker var með 25 stig fyrir Spurs, Manu Ginobili 22 og Michael Finley bætti við 20. Tim Duncan hélt sér að mestu til hlés og gerði aðeins 12 stig, en var einnig með 8 fráköst og 7 stoðsendingar.

Hjá Hornets var Paul með 38 stig, eins og áður kom fram, en David West var með 16.

Washington Wizards – LA Clippers 106-94

Washington lagði Clippers í einvígi tveggja af verstu liðum NBA-deildarinnar í nótt. Sigur þeirra var sannfærandi þar sem þeir juku sífellt við forskot sitt og fögnuðu sínum fyrsta sigri eftir fimm leikja taphrinu. Clippers hafa tapað 19 af síðustu 21 leikjum sínum.

Antawn Jameson fór fyrir Wizards með 25 stig og 12 fráköst, Nick Young var með 22 stig og JaVale McGee var með 18. Hjá Clippers var nýliðinn Eric Gordon sem fyrr ljósið í myrkrinu og gerði 25 stig. Þá gerði Baron Davis, sem er nýstiginn upp úr langvinnum meiðslum, 17 stig, líkt og Steve Novak.

Phoenix Suns –  Chicago Bulls 111-122

Leikmenn Chicago virðast hafa tekið aðfinnslur eiganda liðsins alvarlega því þeir hafa nú unnið þrjá góða sigra í röð, síðast á Phoenix Suns í nótt.

Leikurinn var hraður og skemmtilegur þar sem  varnarleikurinn var í aukahlutverki, en Chicago leiddi allan leikinn og stóð af sér mörg áhlaup heimamanna, sem töpuðu þar með sínum þriðja heimaleik í röð. Stærsti munurinn framan af var í fráköstunum þar sem Bulls fóru á kostum. Í síðasta áhlaupi Suns komust þeir niður í þriggja stiga mun, 82-79, eftir 12-2 sprett, en Chicago hrukku aftur í gang og sigldu örugglega að sigri.

Ben Gordon og Derrick Rose voru með 26 stig hvor fyrir Bulls og Luol Deng 17 stig og 10 fráköst. Leandro Barbosa átti góðan leik fyrir Suns með 32 stig af bekknum, en Grant Hill kom honum næstur með 19 stig og þar á eftir kom Shaquille O‘Neal með 18. Steve Nash var svo með 15 stig og 10 stoðsendingar.

Önnur úrslit:

Philadelphia – New Jersey  83-85
Indiana – New York 113-122

Miami – Dallas 96-111
Houston – Golden State 110-93
Milwaukee – Atlanta 110-107
Portland – Utah 122-108

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -