spot_img
HomeFréttirDuke reyndist allt of stór biti fyrir Furman

Duke reyndist allt of stór biti fyrir Furman

Kristófer Acox og félagar í Furman Paladins spiluðu eflaust sinn stærsta, og jafnframt erfiðasta leik á ferlinum í kvöld – gegn Duke Blue Devils. Lið sem hafði unnið alla 5 leiki sína áður en þeir tóku á móti Furman í gærkvöldi.  Duke sigruðu leikinn örugglega 93-54.
 
Kristófer Acox náði sér ekki á strik í sókninni, frekar en neinn annar af leikmönnum Furman gegn þessari feiknarsterku Duke vörn. Kristó skoraði 2 stig og tók 5 fráköst í leiknum.  Furman skutu hörmulega í leiknum en varnarleikur Duke var ekki beint að gefa þeim nein auðveld eða opin skot, auk þess sem “fear factorinn” var eflaust mjög mikill að spila við þetta lið á þeirra heimavelli. Furman náði aldrei að skjóta betur en 30% í leiknum en það var ekki sömu sögu að segja um Duke sem setti niður hátt í 60% skota sinna og um 40% úr þriggja stiga skotum sínum.
 
Kristófer var jákvæður og hress eftir leikinn þrátt fyrir erfitt en lærdósríkt tap gegn mjög erfiðum andstæðing.
 
“Þetta er væntanlega ástæðan fyrir því að þeir eru rankaðir númer 4. Eru með gæja eins og Okafor sem gæti verið einn af bestu leikmönnunum í NBA núna,” sagði Kristófer og hló. “Allir náttúrulega bara drullugóðir leikmenn. Erfitt að eiga við þá í öllum stöðum og síðan eru þeir með stappað hus af sturluðu fólki og virkilega vel þjálfaðir.”
 
Furman fékk lítinn tíma til að athafna sig á vellinum í leiknum. “Þeir pressa þig í 40 mínútur án þess að stoppa, þótt þeir séu að vinna með 20 eða 30 stigum þá slaka þeir aldrei á.  Kemur mér ekki á óvart ef þeir fara alla leið í ár með þennan hóp.” 
 
“Við getum samt tekið margt gott úr þessum leik og hann mun gera okkur betri. Við gáfumst allavega aldrei upp,” bætti Kristófer við.  ”Ég er lika sáttur við það sem ég gerði á vellinum i kvöld þrátt fyrir að hafa ekki komist í gang sóknarlega.  Hefði getað verið meiri ógn en bakverðirnir vildu gera allt sjálfir. Ég hlýt að hafa verið að spila vel fyrst þeir notuðu mig í 35 min!”  
 
“Ég tók líka uppkastið af Okafor! Það verður gaman að hafa það i reynslubankanum.”
 
Jahlil Okafor var illviðráðanlegur eins og búist var við, með 24 stig, hitti úr 12 af 14 skotum sínum, tók 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Hjá Furman var Stephen Croone stigahæstur með 12 stig en honum gekk heldur illa að finna körfuna með 4 skot ofan í úr 15 tilraunum.
 
Næsti andstæðingur Furman er Liberty háskólinn í Virginíu-fylki en þetta verður annar útileikur þeirra í röð. Liberty Flames hafa fram að þessu tapað fjórum leikjum í röð, en sigruðu sína fyrstu tvo.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -