spot_img
HomeFréttirDuke NCAA-meistarar

Duke NCAA-meistarar

Stórlið Duke vann NCAA-titilinn í nótt eftir frækinn sigur á Öskubuskuliði Butler, 61-59.
Butler-drengir höfðu unnið 25 leiki í röð áður en kom að þessum leik en Duke léku firnagóða vörn allan tímann og voru seigari undir lokin á þessum jafna leik þar sem munurinn varð aldrei meiri en sex stig.
 
Munurinn var eitt stig Duke í hag þegar Gordon Hayward skaut frá endalínu, en það geigaði. Bryan Zoubek, miðherji Duke náði frákastinu þegar rúmar 3 sek voru eftir og var umsvifalaust sendur á vítalínuna. Hann skoraði úr fyrra skotinu en klikkaði viljandi úr því seinna. Hayward fékk boltann og skaut frá miðju, en ofan í vildi hann ekki og draumurinn var úti.
 
Mike Krzyzewski hafði leitt Duke til fjórða titilsins á ferlinum og hins fyrsta frá 2001 og leikmenn liðins hentu sér á framherjann Kyle Singler, sem var valinn maður leiksins með 19 stig og 8 fráköst.
 
Þessi úrslitakeppni, March-Madness, er talinn með þeim betri þar sem fjöldi spennandi leikja og óvæntra úrslita litu dagsins ljós. Þetta gæti þó orðið síðasta árið sem þetta fyrirkomulag er á hlutunum því áætlanir eru uppi um að fjölga liðunum í úrslitakeppninni næsta vor.
 

Mynd/AP: Zoubek og John Schayer fagna í leikslok ásamt lukkudýri Duke.
Fréttir
- Auglýsing -