spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaDúi Þór snýr aftur í Álftanes

Dúi Þór snýr aftur í Álftanes

Álftnesingar eru hvergi nærri hættir að safna liði fyrir komandi átök í 1. deild karla. Í dag tilkynnti liðið að Dúi Þór Jónsson myndi leika með liðinu á komandi leiktíð. Dúi þekkir vel til Álftanes þar sem hann lék tímabilið 2019-2020.

Tilkynningu Álftaness má finna her að neðan:


Leikstjórnandinn Dúi Þór Jónsson er genginn til liðs við Álftanes. Dúi kemur frá liði Þórs frá Akureyri
sem var í Subway-deildinni á síðustu leiktíð. Dúi átti glimrandi tímabil, var í öðru sæti yfir þá leikmenn
sem gáfu flestar stoðsendingar í deildinni, en hann gaf 7,6 stoðsendingar í leik og skoraði að auki um
15 stig í leik. Dúi var valinn í 26 manna landsliðshóp Íslands sem æfði í síðustu viku. Hluti hópsins fór
svo áfram í lokahóp landsliðsins fyrir mikilvæga leiki í undankeppni HM.
Dúi Þór er uppalinn Stjörnumaður. Hann var afar sigursæll í yngri flokkunum með félaginu og steig
svo sín fyrstu skref í meistaraflokki með uppeldisfélaginu. Fyrir síðustu leiktíð færði hann sig svo
norður á Akureyri.

Samstarf Stjörnunnar og Álftaness skilaði því að Dúi Þór lék með liði Álftanes á venslasamningi
tímabilið 2019 – 2020. Hann skoraði þá tæp 18 stig, tók rúmlega sex fráköst og gaf rúmar sex
stoðsendingar í leik, en Dúi var 18 ára það leiktímabil.

Dúi hefur þetta að segja um komandi verkefni með Álftanesi: „Það er gott að spila á nesinu og við
erum með best mannaða hópinn í deildinni að mínu mati. Ég er virkilega spenntur að spila stórt
hlutverk í liði sem ætlar sér stóra hluti á næstu árum.“

Í yngri flokkum Stjörnunnar var Dúi um árabil þjálfaður af Kjartani Atla Kjartanssyni sem nú stýrir liði
Álftaness. „Við erum virkilega hamingjusöm á Álftanesi að hafa fengið Dúa til liðs við okkur. Ég hef
alltaf fylgst vel með ferli hans og veit að Dúi mun koma inn í deildina af miklum krafti. Mér finnst það
virkilega skemmtilegt að verða meistaraflokksþjálfari leikmanns sem ég þjálfaði þegar hann var 10
ára. Ég hef þekkt nokkra í leikmannahópnum okkar ansi lengi og það gefur starfinu aukið vægi. Í
ofanálag er leikmannahópurinn okkar virkilega samstilltur, þetta er eins og góður vinahópur, þannig
að væntumþykjan verður alls ráðandi í vetur,“ segir Kjartan.

Dúi er þriðji leikmaðurinn sem bætist við leikmannahóp Álftaness fyrir komandi átök í 1. deildinni.
Auk Dúa eru þeir Pálmi Geir Jónsson (sem kom frá Val) og Snjólfur Marel Stefánsson (sem kom frá
Njarðvík) gengnir í Álftanes. „Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar er algjörlega frábær og er erfitt að
koma því í orð hversu gott það er fyrir þjálfara að hafa svona öflugt teymi með sér í
leikmannamálum,“ bætir Kjartan Atli við.

Fréttir
- Auglýsing -