Sundsvall Dragons máttu áðan fella sig við 71-94 ósigur gegn Södertalje Kings í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar. Þetta þýðir að Södertalje hefur 3-1 forystu í einvíginu og þarf aðeins einn sigur til viðbótar til þess að tryggja sér sæti í úrslitum.
Södertalje reyndust umtalsvert sterkari í síðari háflleik eftir jafnan fyrri hálfleik. Akeem Wright og Shane Edwards voru stigahæstir í liði Sundsvall báðir með 22 stig í dag en Hlynur Bæringsson gerði 10 stig, tók 9 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þá var Ægir Þór Steinarsson með 5 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar og Jakob Örn Sigurðarson hafði óvenju hægt um sig með 4 stig og 2 fráköst. Ragnar Nathanaelsson var í búning en kom ekki við sögu.
Fimmta viðureign liðanna fer fram næsta föstudag, takist Sundsvall að vinna þann leik fá þeir séns á heimavelli síðan til að jafna einvígið en ef Drekarnir tapa eru þeir komnir í sumarfrí.



