Þór Þorlákshöfn sigraði FSU 94-75 í Iðu í kvöld. Hjá heimamönnum var Christopher Anderson atkvæðamestur með 36 stig og 8 fráköst og Christopher Caird setti 12 stig og tók einnig 8 fráköst. Í liði Þórsara var Vance Hall með 28 stig og 7 fráköst og Ragnar Nathanaelsson var með 23 stig og 21 fráköst og þar með lang flest framlagsstig í leiknum.
Umfjöllun/ Bjarmi Skarp
Það var margmenni sem mætti í Iðu á Selfossi í kvöld til að taka þátt í þeirri íþróttaveislu sem boðið er uppá þegar tvö körfuboltalið frá Suðurlandi leiða saman hesta sína. FSu og Þór hafa aldrei áður mæst í efst deild og því var spennan mikil fyrir leiknum og fólk mætt snemma og byrjað að syngja löngu áður en leikurinn byrjaði.
FSu byrjaði leikinn betur og Hlynur Hreinsson setti tvo þrista snemma í leiknum og kom sínum mönnum í 10-5. Gestirnir leituðu mikið inn í teiginn þar sem Raggi Nat var auðvitað nokkrum hæðum fyrir ofan skólastrákana en það fór brösulega af stað og þeir misstu boltann nokkrum sinnum í upphafi leiksins inn í teig. Þórsarar voru þó ekki lengi að kippa þessu í liðinn og komu sér nokkuð þægilega inn í leikinn og leiddu eftir 1.leikhluta 21-23 eftir flautukörfu frá Vance Hall.
2.hluti var jafn og spennandi allan tímann og hvorugt liðið tilbúið að gefa eftir og menn óhræddir við að henda sér í gólfið eftir lausum boltum. Gestirnir tóku góðan sprett og komu sér 10 stigum yfir en FSu kom sterkt til baka og jöfnuðu aftur. En Vance Hall bauð upp á aðra flautukörfu og staðan i leikhlé 40-42. Chris Anderson var að spila vel og það gladdi marga sem höfðu verið að bíða eftir að þessi öflugi strákur myndi láta betur til sín taka í leikjum FSu. Seinni hálfleikur fór vel af stað og áfram héldu liðin áfram að skiptast á við að stýra leiknum en gestirnir fóru þó fetinu á undan inn í lokahlutann með 1 stigs forystu.
4.leikhlutinn var þó aldrei spennandi. Menn fóru varlega af stað og ekki mikið fjör framan af en þegar um 7 mínutur eru eftir taka þórsarar leikinn algjörlega í sínar hendur og hreinlega völtuðu yfir FSu. Með því að vinna lokahlutann 12-30 tryggðu þeir sér góðan sigur 75-94 og montrétturinn er þeirra þangað til liðin mætast aftur eftir áramót.
Vance Hall var mjög góður í kvöld og tók leikinn í sínar hendur i lokin og setti margar stórar körfur. Raggi Nat var erfiður við að eiga undir körfunni og nafni hans Bragason átti góða spretti. Annars var liðsheildin sterk þeirra megin og sigurinn verðskuldaður.
Hjá FSu var Chris Anderson í sérflokki og nafni hans Caird byrjaði seinni hálfleikinn vel en var í villuvandræðum og endaði leikinn með 5 villur þegar um 7 mínutur voru eftir og það var dýrt fyrir heimamenn. Ari Gylfason vill sjálfsagt gleyma þessum leik sem fyrst en þessi mikla skytta endaði leikinn með 7% skotnýtingu.
FSu-Þór Þ. 75-94 (21-23, 19-19, 23-22, 12-30)
FSu: Christopher Anderson 36/8 fráköst, Cristopher Caird 12/8 fráköst, Ari Gylfason 10/8 fráköst/5 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 9, Gunnar Ingi Harðarson 8/4 fráköst, Birkir Víðisson 0, Geir Elías Úlfur Helgason 0, Maciej Klimaszewski 0/6 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 0, Bjarni Geir Gunnarsson 0, Hilmir Ægir Ómarsson 0, Arnþór Tryggvason 0.
Þór Þ.: Vance Michael Hall 28/7 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 23/21 fráköst/3 varin skot, Ragnar Örn Bragason 22, Baldur Þór Ragnarsson 9/4 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 6/7 fráköst, Emil Karel Einarsson 3/5 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3, Hraunar Karl Guðmundsson 0, Magnús Breki Þór?ason 0, Jón Jökull Þráinsson 0, Halldór Garðar Hermannsson 0.