spot_img
HomeFréttirDraumaeinvígið útkljáð í oddaleik á fimmtudag

Draumaeinvígið útkljáð í oddaleik á fimmtudag

Oddaleikur var það! Einum besta leik tímabilsins var að ljúka. Um 1200 manns að syngja og tralla allan tímann í Ásgarði og leikur í gangi sem réðist ekki fyrr en á lokasekúndunum. Hámarks skemmtun fyrir aurinn. Stjarnan jafnaði seríuna 2-2 gegn Njarðvík með 96-94 sigri. Justin Shouse meinaði Njarðvíkingum um lokaskotið þegar hann komst inn í sendingu Loga Gunnarssonar þegar fjórar sekúndur lifðu leiks og Stjörnumenn fögnuðu vel í leikslok. Það vantaði ekkert hérna í kvöld, liðin skiptust á forystunni, það var harka í þessu, jafnvel umtalsverð á tíma og allur pakkinn. Þið sem ætlið ekki í Ljónagryfjuna á oddaleikinn við treystum því bara að þið verðið erlendis, það er eina afsökunin.
 
 
Stefan Bonneau kom Njarðvíkingum í 2-5 með þrist í upphafi leiks og hann átti eftir að sleppa þeim fleiri lausum þetta kvöldið. Jón Orri Kristjánsson gerðist svo full bráður í liði heimamanna og nældi sér í tvær villur á jafn mörgum mínútum og því sáum við minna af honum en ella þennan fyrri hálfleikinn.
 
Stemmningin var rafmögnuð í Ásgarði, stuðningssveitir beggja liða í góðum gír og leikmennirnir líka. Liðin skiptust átta sinnum á forystunni í fyrri hálfleik og hver tók við keflinu af öðrum. Fyrsta kefli leiksins var í höndum Dags Kárs sem gerði 11 stig fyrir Stjörnuna í fyrsta leikhluta og Bonneau var með 13 hjá Njarðvík. Daði Lár kom öflugur inn af Stjörnubekknum og lokaði leikhlutanum með sóknarfrákasti og körfu og Stjarnan leiddi 26-23 eftir fyrstu 10 mínúturnar.
 
Maciek Baginski jafnaði snemma í öðrum leikhluta 28-28 með þrist en Garðbæingar voru beittari á bensíngjöfinni, keyrðu nokkrum sinnum vel í bak Njarðvíkinga og nældu sér í 34-28 forystu. Snorri Hrafnkelsson tók svo keflið í sínar hendur, setti fjögur góð stig í röð fyrir gestina og tvö þeirra voru úr kennslubók Gunnars Þorvarðarsonar þegar Snorri „pumpaði“ Atkinson laglega upp í loftið og skoraði svo auðveldlega. Eldri Njarðvíkingar í stúkunni þóttust nú kannast við þetta trix sem var vörumerki Gunnars.
 
Hér stóð vel á hjá gestunum en þeim til armæðu vaknaði Justin Shouse, maskínan ekki með eitt einasta stig fyrstu 17 mínútur fyrri hálfleiks en svo vaknaði þessi brosmildi fyrrum leikmaður Drangs á Vík í Mýrdal. Justin skóflaði inn 10 stigum á tveimur mínútum fyrir Stjörnuna, þristar, gegnumbrot og allt þetta sem kallinn kann. Heimamenn héldu því með 50-46 forystu inn í hálfleik og við skulum gefa okkur það að þjálfarar liðanna hafi rennt aðeins yfir varnarleikinn í hálfleiksræðum sínum enda hvorugt þessara liða hamingjusamt með að fá á sig um 50 stig í hálfleik.
 
Atkinson var með 16 stig og 7 fráköst í hálfleik hjá Stjörnunni og Dagur Kár með 11. Hjá Njarðvík var Bonneau með 20 stig og þar af 5-7 í þristum.
 
Nýting liðanna í hálfleik:
Stjarnan: Tveggja 57% – þriggja 40% og víti 67%
Njarðvík: Tveggja 67% – þriggja 37% og víti 56%
 
Framan af þriðja leikhluta voru Garðbæingar að hlaða í smá forystu, heimamenn náðu upp tíu stiga mun 68-58. Á þessum tímapunkti fór allt í gegnum Bonneau hjá Njarðvíkingum og Stjörnuvörninni lét sér líka það vel. Þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja braust Shouse á Bonneau í þristi sem kenndi sér meins og fór af velli. Þarna sprungu Njarðvíkingar út þar sem þeir Logi, Ólafur Helgi og Ágúst voru beittir og forysta Stjörnunnar hvarf niður í tvö stig, staðan 75-73 eftir þrist frá Loga sem voru lokastig leikhlutans.
 
Villta vestrinu var sleppt lausu í upphafi fjórða leikhluta og þar fundu Garðbæingar sig betur, rifu sig aftur frá og náðu 81-73 forystu eftir þrist frá Shouse. Bonneau var kominn aftur inn í liði Njarðvíkinga og hann var í þriggja stiga gallanum, svaraði Shouse í sömu mynt og svona hélt þetta áfram út alla leikhlutann. Stjarnan feti framar en Njarðvíkingar alltaf að hóta því að brjóta ísínn.
 
Þegar rúm mínúta lifði leiks tókst Njarðvíkingum loks að jafna leikinn. Þar var flott sending hjá Loga á Ólaf Helga sem þakkaði fyrir með því að skella niður þrist 91-91 og allt orðið gersamlega brjálað í Ásgarði. Aftur var jafnt 93-93 en svo fór að í tvígang settu Njarðvíkingar Atkinson á línuna sem jók muninn í 96-93. Ólafur Helgi fékk svo villu og setti eitt víti fyrir Njarðvíkinga, staðan 96-94. Í næstu Stjörnusókn kemst Logi Gunnarsson inn í sendingu, brunar fram en Tómas Þórður sem hafði leikið frábærlega í fjórða leikhluta tók af skarið, náði Loga og varði skotið frá honum þegar fjórar sekúndur voru eftir. Frábær varnartilþrif en eflaust slæddist hann eitthvað í höndina á Loga en ekkert var dæmt en engu að síður, fyrirmyndarvinnsla á Tómasi.
 
Njarðvíkingar áttu því innkast og staðan 96-94. Logi Gunnarsson tók innkastið en það lukkaðist ekki betur en svo að Shouse komst inn í sendinguna og gerði vonir Njarðvíkinga um að jafna eða stela sigrinum að engu, lokatöur 96-94 og oddaleikur í Njarðvík næsta fimmtudag!
 
Sem fyrr var Atkinson Njarðvíkingum erfiður með 30 stig og 11 fráköst. Dagur Kár átti flottar rispur með 17 stig og 4 stoðsendingar og þá var Justin Shouse með 21 stig, 5 fráköst og 8 stoðsendingar og klárlega eitt af tveimur mikilvægustu atriðum leiksins þegar hann stal boltanum í lokasókninni. Hjá Njarðvík var Bonneau að hrella Garðbæinga með 34 stig, 8 fráköst og 2 stoðsendingar og Logi Gunnarsson bætti við 22 stigum og 5 stoðsendingum. 
 
Lykil-maður leiksins: Justin Shouse
 
 
Mynd/ Einar Þröstur Reynisson
  
Fréttir
- Auglýsing -