spot_img
HomeFréttirDraumabyrjun Roma breyttist í algjöra martröð

Draumabyrjun Roma breyttist í algjöra martröð

13:00

{mosimage}

Óskar Ófeigur á Fréttablaðinu skrifaði líka um leik þrjú. Hér kemur hans lýsing á leiknum. Þetta birtist mánudaginn 9. júní.

Jón Arnór Stefánsson skoraði átta stig í 72-80 tapi Lottomatica Roma fyrir  Montepaschi Siena í þriðja úrslitaleik liðanna um ítalska meistaratitilinn. Lottomatica  þarf nú að vinna fjóra leiki í röð til þess að vinna titilinn.

Jón Arnór var í byrjunarliðinu og gaf tóninn í byrjun. Strax eftir mínútu náði hann varnarfrákasti af harðfylgi og keyrði upp í hraðaupphlaup, klikkaði reyndar á skotinu en Slóveninn Erazem Lorbek náði sóknarfrákastinu, skoraði og fékk villu að auki.

Hlutirnir féllu líka með Lottomatica í lok fyrsta leikhluta, þeir fengu boltann eftir að dómari leiksins breytti dómi sínum eftir að hafa skoðað sjónvarpsupptöku og í kjölfarið settu þeir niður tvo þrista og voru komnir 26-10 yfir eftir 1. leikhluta.

Lottomatica náði mest 20 stiga forskoti í upphafi annars leikhluta og hlutirnir litu vel út. Jón Arnór var á  bekknum þar til að tæpar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en þjálfarinn var  búinn að nota mjög marga menn.

Leikmenn Montepaschi Siena voru ekkert á því að gefast upp og komu muninum niður í 9 stig. Jón Arnór hafði verið tekinn út af aftur en var settur strax inn á eftir þetta áhlaup gestanna og munurinn var aftur kominn í 12 stig í hálfleik, 38-26.

Jón Arnór byrjaði ekki inn á í seinni hálfleik og Siena byrjaði leikinn strax á því að setja niður tvo þrista og koma muninum niður í sex stig, 38-32, og voru síðan komnir yfir, 40-41. Jón Arnór kom einbeittur inn á, átti flotta  stoðsendingu í þriggja stiga skot sem kom Lottomatica aftur yfir og fiskaði síðan ruðning á frábæran hátt.

Jón Arnór setti síðan niður þriggja stiga körfu í  hraðaupphlaupi í lok þriðja leikhluta. Karfan kom Lottomatica aftur yfir, 46-45, fyrir lokaleikhlutann.

Sóknarleikur Lottomatica varð að einu stóru hnoði og það var ekki nóg að Jón Arnór væri bara að láta boltann ganga. Klaufalegar sendingar og alltof erfið skot kostuðu það að liðið missti leikinn algjörlega frá sér. Siena-menn gengu á lagið og settu niður hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru og allt í einu var staðan orðin 47-56 fyrir gestina í Siena.

Jón Arnór fékk smá hvíld en var síðan fljótur að stela boltanum og skora úr hraðaupplaupi eftir að hann kom inn á aftur. Með því minnkaði hann muninn í 49-57 og Jón Arnór var ekkert á því að gefast upp. Hann skoraði laglegan þrist til að minnka muninn í 54-63. Nær komust þeir samt ekki og ítölsku meistararnir eru komnir í  frábær mál, vantar aðeins einn sigur til þess að verja titilinn.

Jón Arnór gerði vissulega sitt, hann var með 8 stig, 3 fráköst og 2 stolna á bolta á 24 mínútum auk þess að spila grimma vörn og taka að sér leiðtogahlutverk á vellinum.

„Þetta var allt í lagi hjá mér í dag. Ég hef ekki verið að hitta neitt en hef samt verið mjög einbeittur í leikjunum. Ég verð nú eiginlega að viðurkenna það að ég hef verið í smá sálfræðikrísu og kannski of mikið að hugsa um þessi skot. Þetta hefur aðeins eyðilagt fyrir mér því ég hef ekki verið með nógu mikið sjálfstraust sóknarlega,“ sagði Jón Arnór sem hitti úr 3 af 6 skotum. „Mér leið betur í kvöld og setti niður tvo þrista. Ég er einbeittur og í þokkalega góðu formi og þetta er allt að koma í sókninni,“ sagði Jón Arnór að lokum.

Fréttablaðið

Mynd: www.virtusroma.it

Fréttir
- Auglýsing -