spot_img
HomeFréttirDramatískar lokamínútur í Vodafonehöllinni

Dramatískar lokamínútur í Vodafonehöllinni

Valsmenn hafa tekið 1-0 forystu í undanúrslitaeinvígi sínu gegn Þór Akureyri í 1. deild karla. Liðin áttust við í Vodafonehöllinni í kvöld þar sem lokatölur voru 91-86 Valsmönnum í vil. Birgir Björn Pétursson steig vel upp í liði Vals á lokasprettinum en Þórsarar sögðu farir sínar ekki sléttar síðustu mínúturnar og fannst á sig halla. Þeir fá tækifæri til að rétta úr þeim kút á fimmtudag þegar liðin mætast í sínum öðrum leik á Akureyri.
 
Benedikt Skúlason opnaði leikinn fyrir heimamenn í Val með tveimur auðveldum stigum í teig gestanna eftir laglega stoðsendingu miðherjans Birgis Björns Péturssonar. Halldór Örn Halldórsson kom svo gestunum á blað með körfu eftir sitt eigið sóknarfrákast.
 
Valsmenn höfðu frumkvæðið í fyrsta leikhluta, Bjarni K. Árnason kom svellkaldur af Þórsbekknum og minnkaði muninn í 14-13 fyrir gestina með þriggja stiga körfu en þá tók Ragnar Gylfason til sinna ráða og smellti niður tveimur þriggja stiga körfum fyrir heimamenn og staðan orðin 20-13. Þórsarar létu þó ekki stinga sig af og Darco Milosevic stal boltanum, skoraði og fékk villu að auki þegar 4,3 sekúndur lifðu af leikhlutanum. Vítið setti hann niður og staðan 23-20 að loknum fyrsta leikhluta. Valsmenn voru beittir fyrir utan og skoruðu úr 5 af 9 þriggja stiga tilraunum sínum á fyrstu tíu mínútum leiksins.
 
Norðanmenn opnuðu annan leikhluta með látum, þriggja stiga sýningin átti ekki að verða einkaeign heimamanna. Ólafur Aron byrjaði með eina bombu og Halldór Örn Halldórsson fylgdi svo í kjölfarið með tvo í röð og Þórsarar komnir í 23-29 og Ágúst Björgvinsson tók leikhlé fyrir Val. Ágúst lét m.a. þá spurningu falla í leikhléinu hvort sínir menn ætluðu að leyfa Þór að setja á sig 140 stig í kvöld!
 
Fjallræða Ágústar var vel til þess fallin að þétta vörn heimamanna sem hægt og sígandi náðu forystunni og komust í 36-32 þar sem Rúnar Ingi Erlingsson gerði fimm stig í röð. Bjarki Ármann þjálfari Þórsara var þá fljótur að senda aftur inn Ólaf Aron og Halldór Örn sem höfðu fengið stutta pásu.
 
Kristinn Ólafsson hélt Valsmönnum við efnið undir lok fyrri hálfleiks með fimm stiga syrpu í röð og glæsilegu gegnumbroti um leið og fyrri hálfleik lauk og staðan 49-43 í leikhléi.
 
Kristinn Ólafsson var með 12 stig og Rúnar Ingi 11 og 4 fráköst í liði Vals í hálfleik. Hjá Þórsurum voru þeir Ólafur Aron Ingvason og Halldór Örn Halldórsson báðir með 13 stig og Darco Milosevic með 9 og 4 fráköst.
 
Reynsluboltinn Óðinn Ásgeirsson gerði fyrstu stig gestanna í síðari hálfleik og minnkaði muninn í 49-45. Ragnar Gylfason sem fékk ansi drjúga hvíld hjá Valsmönnum í fyrri hálfleik skoraði svo fyrstu stig Vals í síðari hálfleik af vítalínunni.
 
Darco minnkaði muninn fyrir Norðanmenn í 52-50 með þrist og annar slíkur frá Ólafi Aroni kom Þór í 53-55 er þriðji leikhluti var um það bil hálfnaður. Þórsarar höfðu svo yfirhöndina að loknum þriðja leikhluta og leiddu 65-68 fyrir tíu síðustu mínúturnar þar sem þeir unnu þriðja leikhlutann 16-25
 
Örvhenti miðherjinn Birgir Björn jafnaði leikinn fyrir Valsmenn í upphafi fjórða leikhluta með körfu og fékk villu að auki, vítið lak niður og staðan 70-70 og ljóst að lokaspretturinn yrði æsispennandi. Birgir Björn Pétursson var sterkur í fjórða leikhluta hjá Val, gerði m.a. fimm stig í röð en því svaraði Elías Kristjánsson fyrir Þór með sínum eigin fimm stigum í röð og Þór komst í 76-78.
 
Rúnar Ingi Erlingsson átti stóran og mikinn stolinn bolta þegar rúm mínúta lifði leiks, þá rændi hann Darco Milosevic sem fékk svo dæmda á sig villu. Rúnar tölti yfir og kom Valsmönnum í 87-84 af vítalínunni en gestirnir svöruðu strax 87-86.
 
Þegar 41 sekúnda lifði leiks fengu Þórsarar dæmt á sig tæknivíti fyrir peysutog þegar boltinn var ekki kominn í leik. Birgir Björn kom Valsmönnum í 89-86 af vítalínunni og Þórsarar komust svo í sókn og heimtuðu villu þegar 10 sekúndur voru eftir en fengu ekki. Gestirnir brutu strax á Birgi sem var enn eina ferðina kominn á vítalínuna, setti fyrra en brenndi af því seinna en Benedikt Blöndal náði sóknarfrákastinu og þar með voru úrslitin ráðin, 91-86.
 
Birgir Björn gerði 21 stig í liði Vals í kvöld og tók 9 fráköst. Hann átti sterka spretti í síðari hálfleik og þá var Rúnar Ingi Erlingsson með 20 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá Þórsurum var Ólafur Aron Ingvason með 28 stig og 10 stoðsendingar og gamli jaxlinn Óðinn Ásgeirsson gerði 14 stig og tók 17 fráköst.
 
 
Dómarar leiksins: Halldór Geir Jensson og Jakob Árni Ísleifsson.
 
Umjföllun/ [email protected]
  
Rúnar Ingi Erlingsson – Valur
 
Bjarni K. Árnason – Þór Akureyri
Fréttir
- Auglýsing -