spot_img
HomeFréttirDramatík í Vesturbænum: KR í 8 liða úrslit

Dramatík í Vesturbænum: KR í 8 liða úrslit

09:54
{mosimage}

 

(Fagnaðarlætin létu ekki á sér standa í DHL-Höllinni í gærkvöldi) 

 

Íslandsmeistarar KR eru komnir í 8 liða úrslit Lýsingarbikars karla eftir frækinn 104-103 sigur á Grindavík. Fannar Ólafsson gerði sigurkörfu leiksins þegar 8 sekúndur voru til leiksloka þar sem Grindvíkingum misfórst að skora í síðustu sókninni. Helgi Már Magnússon landsliðmaður hjá KR var að vonum káturinn með sigurinn í kvöld.

 

„Grindavík er með hörkulið með menn eins og Pál Axel, Þorleif og Griffin sem skora alltaf einhvern slatta af stigum og við vorum ekki að leika nægilega góða vörn í dag,“ sagði Helgi en þetta er í annað sinn á leiktíðinni sem Grindavík gerir 100 stig eða meira gegn KR. Íslandsmeistararnir keyrðu vel á Grindvíkinga í leiknum sem var hraður og spennandi. „Við viljum líka hlaupa, það er einnig okkar leikur. Páll Axel talaði um það í fjölmiðlum fyrir leikinn að við vildum oft hægja á leikjunum. Það er bara vitleysa, við getum gert báða hlutina,“ sagði Helgi sem og bætti við að hann ætti enga óskamótherja í 8 liða úrslitum, KR ætlaði sér alla leið sama hvað.

 

Grindvíkingar réðu lítið við Joshua Helm í upphafi leiks en Helm gerði 15 stig í fyrsta leikhluta þar sem mikið var skorað á báða bóga. Varnir liðanna voru fremur utangátta en sóknarleikurinn beinskeyttur. Helm kom KR í 19-13 með þriggja stiga körfu en Grindvíkingar unnu á og liðin voru jöfn 32-32 að loknum fyrsta leikhluta.

 

Darri Hilmarsson kom grimmur inn af bekknum hjá KR í öðrum leikhluta og gerði 13 stig fyrir KR. Hann gerði m.a. fyrstu 7 stig KR í leikhlutanum og kom heimamönnum í 39-32. Grindavík jafnaði síðar metin í 41-41 en þá tóku heimamenn aðra rispu og breyttu stöðunni í 62-56 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

 

Joshua Helm gerði aðeins 2 stig í 2. leikhluta og var með 17 stig í hálfleik. Hann lék ekkert fyrstu 5 mínúturnar í öðrum leikhluta. Honum næstur var Darri Hilmarsson með 13 stig. Hjá Grindavík var Jonathan Griffin með 14 stig og Páll Axel Vilbergsson með 10 stig.

 

{mosimage}

(Fannar Ólafsson gerði sigurkörfu leiksins fyrir KR)

 

Grindvíkingar komu baráttuglaðir inn í síðari hálfleikinn og óhætt er að segja að þriðji leikhluti hafi verið eign Páls Axels Vilbergssonar sem gerði 19 stig í leikhlutanum. Þeir Joshua Helm og Pálmi Freyr fengu báðir sína þriðju villu í leikhlutanum og höfðu eftir það nokkuð hægt um sig. KR leiddi þó fyrir síðasta fjórðunginn 86-84.

 

Í fjórða leikhluta var áfram jafnt á með liðunum en Grindvíkingar komust í 92-97 þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Þegar hér var komið við sögu var Jonathan Griffin kominn með fjórar villur í Grindaavíkurliðinu og gulir á leið í sókn. Skarphéðinn Ingason var þá að hamast í Griffin og úr klafsi leikmannanna var dæmt tvívilla og Griffin því með sína fimmtu villu. Mjög ódýr fimmta villa fyrir Griffin sem hafði verið einn helsti broddurinn í sóknarleik Grindvíkinga í fjórða leikhluta.

 

Heimamenn söxuðu svo á forskot gestanna og komust svo yfir 98-99 með þriggja stiga körfu frá Brynjari Björnssyni og 1.35 mín til leiksloka. Igor Beljanski kom Grindavík í 101-100.

 

Í stöðunni 102-103 héldu KR-ingar í sókn þar sem boltinn barst til Fannars Ólafssonar í teignum og Fannar lagði boltann í netið. Staðan 104-103 fyrir KR og Grindavík tók leikhlé. Gulir tóku svo innkast við miðlínuna og Þorleifur Ólafsson braust í gegnum teiginn en skot hans geigaði og sigur KR var í höfn.

 

Leikurinn var frábær skemmtun rétt eins og fyrsti deildarleikur liðanna og ljóst að körfuknattleiksunnendur eiga ekki að láta sig vanta á rimmur KR og Grindavíkur á næstunni. Mikið skorað, mikill hraði og ekkert hangs.

 

Tölfræði leiksins

 

[email protected]  

{mosimage}

 {mosimage}

(Helm treður með tilþrifum, Igor Beljanski gat fátt annað en fylgst varnarlaus með)

Fréttir
- Auglýsing -