spot_img
HomeFréttirDramatík í Keflavík - Milka reis úr öskustónni og tryggði Keflvíkingum eins...

Dramatík í Keflavík – Milka reis úr öskustónni og tryggði Keflvíkingum eins stigs sigur með flautukörfu

Keflvíkingar báru sigurorð af Valsmönnum í Blue höllinni í kvöld í kaflaskiptum naglbít af leik þar sem sigurinn gat dottið báðum megin. Lokamínúturnar voru æsispennandi en Dominykas Milka reyndist hetja heimamanna þegar hann tryggði sigurinn með sóknarfrákasti og körfu um leið og lokaflautið gall.

Fyrir leikinn voru Keflvíkingar í 3. sæti með 10 stig og gátu tyllt sér á toppinn ásamt Þór Þorlákshöfn en Valsmenn í því sjöunda með 8 stig í jafnri og spennandi Subway deild.

Byrjunarlið Keflavíkur: Domynikas Milka, Hörður Axel Vilhjálmsson, Calvin Burks Jr., David Okeke og Valur Orri Valsson

Byrjunarlið Vals: Pablo Bertone, Kári Jónsson, Sveinn Búi Birgisson, Kristófer Acox, Pavel Ermolinskij og Callum Lawson

Gangur leiksins:

Keflvík komst í 7-0 áður en Valsarar svöruðu fyrir sig með körfu frá Kára Jónssyni. Keflvíkingar leituðu mikið að Okeke og Milka undir körfunni í sóknaraðgerðum sínum auk þess sem að þessir tveir ryksuguðu upp fráköstin á báðum endum vallarins. Valsmenn fengu flest sín stig fyrstu mínúturnar eftir hröð upphlaup þar sem hraði Kristófer Acox naut sín vel á móti Milka sem skilaði sér hægt heim eftir varnarfráköst gestanna. Milka bætti það þó upp með 12 stigum í leikhlutanum. Leikurinn nokkuð jafn í gegnum fyrsta leikhlutann en Keflvíkingar þó skrefi á undan og leiddu að honum loknum 19-14.

Valsmenn  byrjuðu annan leikhluta af miklum krafti og breyttu stöðunni í 19-21 með 0-7 áhlaupi þökk sé þéttingu byggðar í teignum í varnarleik sínum. Hjálmar Stefánsson átti flotta innkomu af bekknum hjá Val og sá um að orkustigið væri hátt hjá gestunum sem héldu frumkvæðinu um miðbik 2. leikhluta. Pavel Ermolinskij og Pablo Bertone sáu um að mata félaga sína og voru saman með 10 stoðsendingar í hálfleiknum. Eftir að Callum Lawson hafði svo komið muninum í 8 stig með þriggja stiga körfu eftir enn eitt vel heppnað transition gestanna hafði Hjalti Vilhjálmsson fengið nóg og tók leikhlé þar sem hann bað sína menn vinsamlegast um að skrúfa upp bensínið. Eftir leikhléið komu 5 stig í röð frá Calvin Burks sem hafði haft ansi hljótt um sig fram að því. Jafnframt ber að nefna virkilega jákvæðar mínútur frá Hr. Keflavík, Þresti Leó Jóhannssyni sem að kveikti bál í heimamönnum sem loksins fundu „grúvið“ sitt í varnarlega í gegnum bráðsmitandi orkuna sem hann kom með með sér á parketið. Keflvíkingar nýttu sér þennan meðbyr og tóku  tveggja stiga forystu með sér inn í hálfleikinn, 37-35.

Þriðji leikhluti var í járnum fyrstu 5 mínúturnar þar sem troðslur Kristófer Acox glöddu augað og þristunum var vel dreift til beggja liða. Það opnaðist betur fyrir Hörð Axel og Val Orra er líða tók á og settu þeir sitthvora 2 þristana á skömmum tíma og kom Valur Orri Keflvíkingum í 56-49 með einum slíkum þegar 2:50 voru eftir af leikhlutanum og Finnur tók leikhlé til að reyna að stilla leik sinna manna. Ekki tókst Valsmönnum að brúa bilið frekar áður en leikhlutanum lauk með flautuþristi í horninu frá Bertone og staðan því enn 7 stig, 64-57, fyrir lokafjórðunginn.

Bertone hóf 4. leikhluta með körfu, eins og hann lauk þeim þriðja og Benedikt Blöndal setti niður sína þriðju þriggja stiga körfu í leiknum áður en Hjálmar Stefánsson jafnaði metin í 64-64 eftir 90 leiksekúndur og allt stefndi í æsispennandi endir sem úr varð raunin.  Liðin skiptust á höggum næstu mínúturnar og baráttan fór harðnandi með hverri sókninni sem leið. Pablo Bertone kom Valsmönnum yfir í fyrsta skipti í langan tíma, 71-72, með þriggja stiga körfu en Calvin Burks svaraði jafnóðum og Keflavík var yfir með tveimur stigum, 74-72, þegar 2:40 voru eftir. Staðan var jöfn 76-76 þegar 80 sekúndur voru eftir og Keflvíkingar lögðu af stað í sókn sem fór forgörðum. Kári Jónssón réðist því næst á Milka eftir að hafa fengið skipti á skríni og setti snyrtilegt stutt skot niður og kom Val í forystuna með 45 sekúndur á klukkunni. Dominikas Milka setti niður 1 víti af tveimur í næstu sókn og Valsmenn með boltann og 30 sekúndur til að spila úr. Valsmenn náðu ekki upp skoti og Kári tapar boltanum í hendur Vals Orra þegar 9 sekúndur voru eftir í teig heimamanna. Kári gerði tilkall til villu í gegnumbroti sínu en dómarar leiksins sáu ekki ástæðu til að dæma og átti það eftir að reynast gestunum dýrkeypt ákvörðun. Valur Orri óð upp völlinn, sótti inn í teiginn og náði upp skoti sem geigaði, Jaka Brodnik blakaði frákastinu að körfunni sem endaði í spjaldinu og Dominykas Milka reyndist hetja heimamanna þegar hann setti frákastið ofan í um leið og flautan gall og stuðningsmenn Keflavíkur ærðust! Dramatískur endir í meira lagi og Keflavík hirti stigin tvö með eins stigs sigri. Lokatölur 79-78.

Hvað réði úrslitum í kvöld?

Stöngin inn – stöngin út fyrir bæði liðin eftir því hvar drepið er niður. Hvorugt liðið átti sigurinn meira skilið og er lokasókn beggja liða það sem skilur að og mögulegur dómur sem aldrei var kveðinn. Valsmenn ná ekki upp skoti á síðustu metrunum og fá síðan 2 sóknarfráköst í andlitið sem endar með sigurkörfu Milka sem var í góðri stöðu með Kára að slást við sig um frákastið og verður það að teljast ansi ójafn leikur. Hálf sekúnda til eða frá og sigurinn hefði setið skælbrosandi í farþegasætinu á leiðinni á Hlíðarenda í þessum skrifuðu orðum. Leikurinn bar þess merki að bæði lið ættu inni gír og að leikur þeirra sé ekki fullmótaður og hlutverkaskipti og „idendity“ ekki komin á hreint.

Bestu menn vallarins

Dominykas Milka átti sinn besta leik í vetur og valdi heldur betur leikinn til að stíga upp úr lægðinni sem hann er búinn að vera í þar sem David Okeke var ekki á deginum sínum. 26 stig og 13 fráköst, þar af 7 sóknarfráköst,  ásamt hetjuendir er ágætis veganesti til að taka með sér inn í næstu leiki og þagga um leið tímabundið í gagnrýnisröddum. Langbesti maður vallarins í kvöld.

Aðrir Keflvíkingar áttu sínar skorpur, Hörður Axel skilaði 6 stigum og 10 stoðsendingum auk þess að sýna flottan varnarleik að venju. Calvin Burks setti 14 stig og þeir David Okeke og Valur Orri 9 hver.

Hjá Val var Kristófer Acox stigahæstur með 16 stig og tók auk þess 13 fráköst. Pablo Bertone var með 15 stig og 6 fráköst. Þá voru Pavel Ermolinskij og Kári Jónsson skæðir á köflum auk þess sem að Pavel sýndi enn á ný hversu frábær varnarmaður hann er í teignum.

Þá ber að nefna Benedikt Blöndal sem átti líklega sinn besta leik í úrvalsdeild í kvöld en það hefur verið virkilega ánægjulegt að fylgjast með hægum en bítandi uppgangi Benedikts síðustu ár. Benedikt er að fá meira traust frá Finni Frey og þakkar fyrir sig með því að spila sitt hlutverk uppá 10 í kvöld. 9 stig, mikil orka, áræðni í árásum að körfunni sem enduðu alltaf með skilvirkri sendingu á opin mann, dekkar Calvin Burks á köflum með fínum árangri og líkamlegt atgervi farið að líkjast því sem til þarf til að eiga í baráttu við fullþroskuð karldýr á úrvalsdeildar-kalíberi. Uppskera mikillar vinnu og samviskusemi án nokkurs vafa. Vel gert Bennsi og meira svona, takk.

Hvað gerist næst?

Keflavík mætir KR í Frostaskjólinu í næstu umferð á meðan Valsmenn fá topplið Íslandsmeistara Þórs frá Þorlákshöfn í heimsókn. Báðir leikir fara fram 3. desember.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -