spot_img
HomeFréttirDragic kom Suns í 3-0 með stórleik - LeBron sá um Celtics

Dragic kom Suns í 3-0 með stórleik – LeBron sá um Celtics

Phoenix Suns virðast ekki ætla að láta SA Spurs verða mikla fyrirstöðu þar sem þeir unnu í nótt þriðja leikinn í einvígi liðanna, þar sem Goran Dragic kom sterkur inn, og þurfa þeir aðeins einn sigur í viðbót. Á meðan kvittuðu Cleveland Cavaliers allhressilega fyrir tapið gegn Boston á dögunum með sannfærandi útisigri þar sem LeBron James fór á kostum.
Boston komu Cavs í opna skjöldu með sigri í öðrum leik liðanna, en LeBron James sá til þess að aldrei væri hætta á öðru tapi. Hann gerði 21 stig í fyrsta leikhluta þar sem Cavs tóku öll völd og enduðu með því að vinna stærsta sigur sem nokkuð lið hefur unnið í úrslitakeppni í Boston.
 
James endaði með 38 stig og var ekki að sjá að meiddi olnboginn, sem mikið hefur verið skrafað um, væri að há honum. Kevin Garnett gerði 19 stig fyrir Celtics og Rajon Rondo 18.
 
Phoenix Suns eiga harma að hefna gegn Spurs sem slógu þá út úr úrslitakeppninni ár eftir ár, og eru í góðri stöðu eftir að hafa komist í 3-0 í einvíginu.
 
Spurs leiddu allan leikinn þar til komið var fram í fjórða leikhluta þegar Suns tóku á mikinn sprett. Innblásturinn kom úr afar óvæntri átt þar sem varamaðurinn Goran Dragic sjóðhitnaði og gerði 23 stig í síðasta leikhlutanum þar sem hann hitti m.a. úr öllum fimm 3ja stiga skotum sínum.
 
Hann endaði með 26 stig, Jason Richardson bætti við 21 og Grant Hill var með 18. Hjá Spurs var Manu Ginobili með 27 stig.
Fréttir
- Auglýsing -