Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í Iceland Express deildinni, segist vera að íhuga það í samráði við forráðamenn félagsins að draga liðið úr keppni í vetur. Þetta kemur fram á www.visir.is í dag.
„Við tökum ákvörðun um það annaðhvort á morgun eða hinn hvort við sendum lið í keppni," segir Jóhann en þrír lykilleikmenn hafa þegar tilkynnt að þeir verði ekki með liðinu og það gætu fleiri bæst í þann hóp. Jovana Lilja Stefánsdóttir er farin út, Ingbjörg Jakobsdóttir ákvað að fara í Keflavík og Íris Sverrisdóttir ætlar að spila með annaðhvort KR eða Haukum.
„Þetta fór strax af stað í vor að það yrði ekkert lið og þessi og hin ætluðu að hætta. Þetta er búið að vera erfitt sumar og við höfum upp á síðkastið fengið hverja fréttina á fætur annarri um leikmenn sem eru á förum frá okkur," segir Jóhann en hann segir að það sé búið að gera mikið fyrir þessa kynslóð í Grindavíkurliðinu sem er nú að yfirgefa félagið þegar á reynir.
Ljósmynd/ Jovana Lilja í leik með Grindavík á síðasta tímabili. Hún er nú búsett í Þýskalandi.



