Undirritaður vill koma á framfæri athugasemdum vegna ummæla Inga Þórs Steinþórssonar, þjálfara kvennaliðs Snæfells í unglingaflokki, á karfan.is um dómaframkvæmd í úrslitaleik í ufl.kv. Jafnframt er þessari grein ætlað að varpa ljósi á mikilvægi skilnings á leikreglum.
Í greininni veður Ingi Þór um víðan völl; kvartar sáran yfir óréttlátri meðferð af minni hálfu og telur að ég sem aðaldómari leiksins hafi tekið alranga ákvörðun í leikslok þar sem úrskurða þurfti um gildi lögmæti lokaskots Keflavíkurliðsins. Hann bendir á að undirritaður hafi tekið sér um 20 mínútur til þess að skoða lokakaflann og endað á rangri niðurstöðu. Þessu vísa ég algjörlega til föðurhúsanna og tel að ákvörðun mín hafi verið hárrétt eins og myndbandsupptakan sýnir glögglega. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá ber mér að fara eftir leikreglum um körfubolta.
Í leikreglum FIBA segir að dómarar hafi heimild til að skoða lokaskot hvers leikhluta af upptöku. Á kjarnyrtri engilsaxnesku segir (grein C.4):
Videos, films, pictures or any equipment, visual, electronic, digital, or otherwise, may be used only to:
• Decide if a last shot for a field goal at the end of each period or each extra period was released during playing time and/or whether that shot for a field goal counts for two (2) or three (3) points.
Til að skilgreina hugtakið „playing time“ segir í grein 9.8:
A period, extra period or game shall end when the game clock signal sounds for the end of the period. When the backboard is equipped with lighting around its perimeter, the lighting take precedence over the game clock signal sound.
Niðurstaðan er einfaldlega sú að körfuboltadómurum er óheimilt að nota upptöku til að ákveða hvort tíminn var settur af stað á réttum tíma heldur aðeins að meta það hvort knötturinn hafi verið laus úr hendinni þegar hljóðmerkið heyrist sem ákvarðar lok leikhlutans. Það er engum vafa undirorpið að leikmaður Keflavíkur sleppir boltanum áður en að hljóð um lok venjulegs leik heyrist. Um það hljóta allir sem horfa á myndbandið að vera sammála. Ástæðan fyrir því að ég studdist við tæknibúnað var auðvitað sú að ég var ekki fullviss um hvort boltinn hafði yfirgefið hönd sóknarmanns áður en hljóðmerkið heyrðist og þar nýtti ég mér heimild skv. leikreglum til þess að fullvissa mig um. Þannig er ekki verið að búa til nýja túlkun á leikreglum – hún er í fullu samræmi við leikreglur og er þar af leiðandi ekki fordæmisgefandi eins og þjálfari Snæfellsstúlkna gefur í skyn.
Hvort tíminn hafi verið settur af stað á hárréttum tíma er svo allt annar handleggur. Koma þar aðrir þættir til sögu eins og viðbragðsflýti og skynjun hvers og eins sem gegnir starfi tímavarðar. Augljóst er að tímavörður setur leikinn af stað eins fljótt og hann verður þess áskynja að leikmaður hafi snert boltann. Mistök tímavarðar verða hins vegar ekki leiðrétt með myndbandsupptöku, fyrir því eru einfaldlega ekki heimildir í leikreglum.
Það getur vel verið að sumar leikreglur orki tvímælis og túlkun dómara á þeim kunni að vera ósanngjörn gagnvart þátttakendum leiksins. En rétt skal vera rétt. Verkefni okkar dómara er nefnilega dæma eftir leikreglunum og túlka þær eins nákvæmlega og hægt er. Við gerum okkar stóru og smáu mistök en það á ekki við um lokaatvikið í umræddum leik eins og fyrr var getið. Telji Ingi Þór sig hafa verið beittur órétti vegna leikreglna þarf hann að beina gremju sinni að FIBA eða enn æðra yfirvaldi.
Eggert Þór Aðalsteinsson