spot_img
HomeFréttirDominosdeild karla - tölfræðisamantekt

Dominosdeild karla – tölfræðisamantekt

KR er besta lið deildarkeppninnar skv. FourFactors greiningu. Langskilvirkasta sóknarliðið, sama frá hvaða tölfræðiþætti er litið. Vörnin slaknaði aðeins hjá KR-ingum á seinni hluta tímabilsins en Grindvíkingar náðu að síga fram úr KR þar. KR er hins vegar með bestu gildin í öllum öðrum tölfræðiþáttum er snúa að vörn. Michael Craion heldur uppteknum hætti og hefur bara bætt við sig ef eitthvað er í PER mælingum og lýkur tímabilinu með 35,4. Benjamin Curtis Smith átti magnaðan lokasprett á seinni hlutanum og endaði í öðru sæti. Af íslensku leikmönnunum átti Sigurður Þorsteinsson hjá Grindavík mjög góðan seinni hluta og jók PER gildið sitt úr 20,6 upp í 25,8. Elvar Már slakaði umtalsvert á þeirri siglingu sem hann var á og endaði rétt fyrir neðan Sigurð. Enginn komst í návígi við Ragnar Nat í sóknarfráköstum en sá reif niður 61,6% allra sóknarfrákasta sem í boði voru á meðan hann var inni á vellinum í vetur. Langhæst allra leikmanna deildarinnar.
 
Hér að neðan má sjá greiningu á liðum Dominosdeildar karla eftir Four Factors aðferð eftir 22 umferðir. Þá eru teknir saman fjórir þættir sem taldir eru hafa hvað mest áhrif á leik liða í sókn og vörn, en þeir eru virk skotnýting (eFG%), hlutfall tapaðra bolta (TOV%), hlutfall sóknarfrákasta (ORB%) og að lokum hlutfall skoraðra víta á móti skottilraunum utan að velli (FT/FGA). Í sókn eru þetta gildi fyrir liðið sjálft en í vörn eru þetta gildi fyrir andstæðinga liðanna. Hægra meginn við hvern þátt kemur fram í hvaða sæti liðið lendir meðal hinna liðanna í hverjum þætti.
 
 
Á myndinni hér að neðan má sjá vegið meðaltal þessarra þátta í sókn (S) og vörn (V), þ.e. vegið meðaltal á sætaskipan liðanna í hverjum þætti. Skotnýtingin (eFG%) fær mesta vigt eða 40%, tapaðir boltar (TOV%) 25%, sóknarfráköstin (ORB%) 20% og að lokum hlutfall víta og skottilrauna (FT/FGA) 15%. Jafnt meðaltal þessara tveggja vegnu meðaltala sýnir svo “Alls” dálkinn. Lægstu gildin í S, V og Alls dálkunum sýna bestu liðin í sókn, vörn og í heildina. ORgt er Offensive Rating og táknar skoruð stig per 100 sóknir og DRgt er Defensive Rating og táknar skoruð stig andstæðinga per 100 sóknir. Pace er meðaltal sókna liðs og andstæðings í leik og táknar leikhraðann sem liðin spila á. OffFloor% og DefFloor% meta skilvirkni sókna og varna. Floor% sýnir hlutfall sókna þar sem skorað er a.m.k. eitt stig á móti öllum sóknum. Hlutfall sem sýnir nýtingu liða á þeim sóknum sem spilaðar eru. Hátt gildi í OffFloor% er jákvætt en lágt gildi í DefFloor% er jákvætt. Liðunum á þessari mynd og myndinni að ofan er raðað upp eftir gildum í “Alls” dálkinum.
 
 
Á myndinni hér að neðan sést dreifing stigaskors og skotval liðanna og andstæðinga þeirra. Með þessu er hægt að sjá áherslur liða í sókn og vörn. Hverjir skjóta meira en aðrir fyrir utan þriggja stiga línuna og hverjir gefa þau skot eftir, hverjir sækja hæst hlutfall stiga sinna af vítalínunni, o.s.frv. Liðum er raðað upp eftir stafrófsröð.
 
 
Hér að neðan má sjá 20 efstu leikmenn Dominosdeildar karla  í PER (Player Efficiency Rating). Lágmark allra tölfræðiliða miðast við að leikmaður hafi spilað a.m.k. 305 mínútur í heildina sem er rúmlega 38% af þeim leiktíma sem er uppsafnaður eftir 22 umferðir. Skýringar á merkingu tölfræðiliðanna má sjá neðst á síðunni.
 
 
Sama tafla nema með 20 bestu íslensku leikmönnunum.
 
 
MPG – Meðaltal mínútna spilaðra í leik.
 
PPG – Meðaltal stiga skoraðra í leik.
 
FPG – Meðaltal framlags í leik.
 
AST% – Áætlað hlutfall skoraðra karfa utan að velli sem leikmenn liðs skoruðu eftir stoðsendingu leikmanns á meðan hann var inni á vellinum.
 
A/TO – Hlutfall stoðsendinga leikmanns á móti töpuðum boltum.
 
BLK% – Áætlað hlutfall skota andstæðings sem leikmaður varði á meðan hann var inni á vellinum.
 
DRB% – Áætlað hlutfall mögulegra varnarfrákasta sem leikmaður tók á meðan hann var inni á vellinum.
 
eFG% (Effective Field Goal Percentage) – Mælikvarði á skotnýtingu sem leiðréttir fyrir þeirri staðreynd að þriggja stiga karfa er einu stigi verðmætari en tveggja stiga. T.d. ef annars vegar leikmaður A skorar 4 körfum í 10 tilraunum og þar af voru 2 utan þriggja stiga línunnar og hins vegar leikmaður B sem skorar 5 körfur í 10 tilraunum og engin þriggja stiga. Báðir leikmenn skora 10 stig og virk skotnýting þeirra því sú sama eða 50%.
 
Floor% – Hlutfall sókna sem leikmaður skorar a.m.k. 1 stig á móti öllum sóknum sem leikmaður tekur þátt í.
 
ORB% – Áætlað hlutfall mögulegra sóknarfrákasta sem leikmaður tók á meðan hann var inni á vellinum.
 
PER – Player Efficiency Rating er gildi sem mælir skilvirkni og frammistöðu leikmanna og var sett saman af John Hollinger sem lengi skrifaði fyrir ESPN en er nú framkvæmdastjóri Memphis Grizzlies. PER tekur saman það jákvæða og dregur frá það neikvæða í frammistöðu leikmanns og skilar mati henni með tillit til leiktíma.
 
PPP – Stig per sókn.
 
TRB% – Áætlað hlutfall allra mögulegra frákasta sem leikmaður tók á meðan hann var inni á vellinum.
Fréttir
- Auglýsing -