spot_img
HomeFréttirDómgæsla yngri flokka.

Dómgæsla yngri flokka.

13:16

{mosimage}

Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál.

Um helgina fóru fram bikarúrslitaleikir yngri flokkanna.  Þessir leikir eru síst minni í augum þátttakenda en bikarúrslitaleikir karla og kvenna.  Það er afar mikilvægt að dómararnir hafi þetta í huga þegar þeir undirbúa sig fyrir þessa leiki.  Umgjörð leikjanna er nú komin í fastar skorður og stóðu Keflvíkingar vel að leikjunum um helgina.

Það var gaman að sjá hversu margir áhorfendur voru á leikjunum og hefur örugglega verið gaman fyrir leikmenn að taka þátt í leikjum af þessari stærðargráðu.  Ég veit fyrir víst að dómararnir höfðu mjög gaman af því að dæma leikina.  Það eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga þegar dómarar undirbúa sig fyrir leiki yngri flokka.  Þeir þurfa að gera sér grein fyrir hversu langt leikmennirnir eru komnir í leikni og þekkingu á leiknum.  Yngri leikmenn þurfa meiri leiðbeiningu heldur en hinir eldri. 

Að veita leiðbeiningar er vandasamt, því þær leiðbeiningar mega á engan hátt snerta leikfræðina, en slíkar leiðbeiningar heyra undir þjálfarann.  Leiðbeiningar og útskýringar á reglunum er á hendi dómaranna.  Ég man eitt sinn er ég þjálfaði í yngri flokkunum og var búinn að eyða miklum tíma í að þjálfa upp hungur og ákafa í vörninni að vilja að ná í boltann.  Ég varð mjög svekktur eitt sinn þegar dómarinn kallaði á leikmennina mína „ekki slá!“.  Slíkt er ekki hans hlutverk, honum var hins vegar í lófa lagið að dæma villur þegar það átti við eða koma fyrirbyggjandi skilaboðum til þjálfarans.

Ég átti gott spjall um daginn við reyndan yngri flokka þjálfara og okkur greindi að nokkru leiti á um hlutverk dómara í kennslu reglnanna til yngri iðkenda.  Reyndar er það svo að dómgæsla í yngri flokkum í fjölliða mótum er á hendi liðanna og er sjaldnast um að ræða dómara með réttindi né bakgrunn úr dómgæslu.  Mitt mat er að þjálfarar eiga að kenna reglurnar á æfingum en ekki láta dómgæsluna hverju sinni hafa áhrif á hvað hægt er að „komast upp með“.  Mér finnst til að mynda leikmenn skrefa allt of mikið.  Hversu mikið er rétt fótavinna kennd á æfingum og skrefareglan útskýrð?  Hversu mikið er dæmt af skrefum þegar leikmenn spila á æfingum?  Eflaust er þetta misjafnt og ég trúi því að betri og reyndari þjálfarar standi sig betur í þessu en hinir.  Þjálfarinn vildi meina að nám leikmanna í reglunum væri einkum í gegnum leikinn og þar gegndu dómarar mikilvægasta hlutverkinu.  Ég get að nokkru leiti tekið undir það ef dómarar yngri flokka væru allir með réttindi og væru á forræði dómaraforystu KKÍ varðandi þjálfun og endurgjöf, en svo er það bara alls ekki.

Það er þess vegna afar mikilvægt að miða dómgæslu í yngri flokkum við færni iðkenda og þá sérstaklega að hafa besta liðið sem viðmið.  Það á að vera þannig að ef tvö lið mætast og annað liðið skrefar aldrei en hitt oft þá á að dæma mikið af skrefum.  Það er ekki sanngjarnt að litið sé framhjá mikilvægum þætti í kennslu og þjálfun þó það komi öðru liðinu illa.  Þannig fær góð grunnþjálfum mikið vægi sem skilar betri leikmönnum til framtíðar.

Yngri leikmenn hafa minni skilning og þol gagnvart leikflæði og beitingu hagnaðarreglunnar.  Því er mikilvægt í upphafi körfuknattleiksiðkunar að í dómgæslu sé meiri áhersla sé lögð á grundvallaratriði varðandi villur og leikbrot en minni áhersla á leikflæði og hagnaðarregluna.  Þetta reynist mörgum reyndum dómurum erfitt.  Það er alls ekki víst að bestu dómarar hjá fullorðnum séu bestu dómarar fyrir börn. 

Ég vil hvetja þjálfara yngri flokka að leggja sérstaka áherslu á góða grunntækni sem stenst reglurnar, einkum varðandi skref og vörn.  Á sama tíma hvet ég dómara til að mæta vel undirbúna til leiks í yngri flokkum og leggja áherslu á að dæma í samræmi við getu iðkennda og hafa í huga mikilvægi grundvallaratriða fyrir unga iðkendur.

Með bestu kveðjum,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari

Fyrri skrif Kristins
Er að finna til vinstri á forsíðu karfan.is undir liðnum „Dómaramál með K.Ó.“

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -