spot_img
HomeFréttirDoc Rivers verður næstu fimm árin hjá Boston fyrir metfé - önnur...

Doc Rivers verður næstu fimm árin hjá Boston fyrir metfé – önnur atlaga að titlinum

Doc Rivers, þjálfari Boston, mun framlengja samning sinn við Boston í byrjun næstu viku og skrifa undir nýjan fimm ára samning. Miklar vangaveltur voru um framtíð hans sem og leikmanna Boston eftir að liðið féll úr keppni. Rivers er límið í núverandi liði Boston og því ljóst að ef hann verður áfram munu helstu leikmenn liðsins einnig gera það.
Aldur lykilmanna í Boston er mikið áhyggjuefni fyrir þá grænu en Paul Pierce(34), Kevin Garnett(35) og Ray Allen(36) eru allir á sínum síðustu árum sem topp leikmenn. En þrátt fyrir það telja þeir sem og forsvarsmenn Boston að þeir geti gert aðra atlögu að titlinum. Með Doc Rivers við stjórnvölinn verða þeir þrír áfram kjarninn í liðinu ásamt hinum eitursnögga Rajon Rondo. Einhverjar breytingar verða á liðinu í sumar en ekki meðal kjarna liðsins.
 
Fjölskylda Doc Rivers býr í Orlando og því var talið að þetta yrði hans síðasta ár í Boston og ræddi hann það oft á tímabilinu að þetta gæti orðið hans síðasta tímabil.
 
En honum hefur snúist hugur og þessi fimm ára samningur tryggir það að hann verður við stjórnvölinn þegar Boston byrjar að endurskipuleggja liðið sitt eftir að þeir Paul Pierce, Kevin Garnett og Ray Allen hætta að spila.
 
Rivers hefur sagt að hann dáist mikið að Jerry Sloan og vilji vera hjá Boston út feril sinn eins og Sloan var hjá Utah. En Sloan þjálfaði Utah í 21 tímabil þangað til hann hætti í febrúar síðastliðnum.
 
Doc hefur verið sjö tímabil með Boston en þessi nýji samningur mun tryggja honum 35 milljónir dala sem er einn stærsti langtímasamningur sem þjálfari hefur gert. Phil Jackson, þjálfari Lakers, fékk 10 milljónir fyrir veturinn en hann var ávallt á stuttum samningum.
 
Mynd: Doc Rivers og Paul Pierce á góðri stundu en þeir félagar ætla að gera aðra atlögu að titlinum í NBA á næsta tímabili.

Fréttir
- Auglýsing -