16:04
{mosimage}
(Divac brá á leik á góðgerðartónleikunum)
Serbneska körfuboltagoðsögnin Vlade Divac kvaddi körfuboltann fyrir fullt og allt um helgina í heimabæ sínum Prijepolje í Serbíu þar sem hann stóð fyrir kveðjupartýi. Í kveðjuteitinni voru m.a. haldin götuboltamót og stórtónleikar í Belgrad til styrktar góðgerðarsjóði sem Divac starfrækir. Þá voru félagar hans úr NBA deildinni viðstaddir, leikmenn á borð við Chris Webber og þriggjastiga skyttuna Glen Rice en allir lögðust á eitt um að vekja athygli að góðgerðasjóði Divac sem á nú hug hans allan síðan skórnir fóru á hilluna.
Divac kvaddi með þeim orðum að hann vonaðist til þess að ferill hans sem körfuknattleiksmaður gæti orðið öðrum innblástur. ,,Ferill minn hefur sýnt það að venjulegur maður úr ósköp venjulegum bæ getur látið drauma sína rætast,” sagði Divac sem m.a. hefur tvívegis orðið Heimsmeistari og þrívegis Evrópumeistari.
Ferill Divac hófst hjá Sloga Kraljevo en hann varð fyrst kunnur fyrir frammistöðu sína með Partizan þar sem hann varð einn sterkasti körfuknattleiksmaður Evrópu. Frá Partizan fór Divac í NBA deildinna og gekk til liðs við Los Angeles Lakers og var á mála hjá klúbbunum í sjö ár samfleytt og fór síðar víðar um NBA deildina.
Divac er í hópi með ekki ómerkari mönnum en Kareem Abdul-Jabbar og Hakeem Olajuwon en þessir þrír kappar eiga það sameiginlegt að hafa gert 13.000 stig í NBA deildinni eða meira, tekið 9000 fráköst, gefið 3000 stoðsendingar og varið 1500 skot eða fleiri.
Mynd: www.fiba.com



