spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaDinkins hótaði þrennu í spennusigri gegn Val

Dinkins hótaði þrennu í spennusigri gegn Val

Njarðvík tyllti sér aftur á topp Bónusdeildar kvenna með seiglusigri gegn Val í æsispennandi leik í IceMar-Höllinni í kvöld. Lokatölur 94-90 í leik þar sem Valur náði á tíma 18 stiga forystu. Dinkins reyndist þrautgóð á raunastund og fór fyrir Njarðvíkingum á spennandi lokaprett leiksins. Dinkins lauk leik með 36 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar. Ásta Júlía var atkvæðamest hjá Val með 20 stig og 11 fráköst. 

Lára Ásgeirsdóttir var ekki í búning í kvöld vegna meiðsla og fylgdist því með í borgaralegum klæðum af varamannabekknum. Valskonur komu inn í leikinn á athyglisverðum stað með fimm útisigra í röð í farteskinu. Njarðvík lokaði því þessu útivallar „rönni“ hjá Val með sigri kvöldsins og unnu sinn annan heimaleik í röð. 

Njarðvíkingar opnuðu leikinn 6-2 en Valkonur hrukku þá í gír og breyttu stöðunni í 8-19 með 2-17 áhlaupi þegar rúmlega fimm mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta. Ásta Júlía að leika einkar vel í Valsliðinu í upphafi leiks. Valskonur lokuðu leikhlutanum vel og leiddu 14-26 að honum loknum. Paulina með 5 stig í Njarðvíkurliðinu en Ásta Júlía 7 hjá Valskonum. Liðin voru s.s. ekkert að funheit fyrir utan þessar fyrstu tíu mínútur, 9 þristar samtals og einn niður Valsmegin en það voru gestirnir sem voru mun baráttuglaðari og það skýrði muninn eftir fyrstu tíu mínúturnar. 

Gestir voru áfram talsvert sterkari fyrstu fimm mínúturnar í öðrum leikhluta, staðan 22-38 og rúmar fimm mínútur í hálfleik þegar Njarðvíkingar tóku leikhlé. Eftir 15 mínútna leik voru heimakonur ekki búnar að skora einn þrist og virtust líka illa hversu föst fyrir Valsvörnin var. Njarðvíkingar settu í svæðisvörn og tókst þá að hemja sóknarleik Vals lítið eitt og minnkuðu muninn í 33-45. Loks þegar svo fyrsti Njarðvíkurþristurinn leit dagsins ljós þá var það Hulda María sem skoraði fyrir heimakonur um leið og fyrri hálfleik lauk og Njarðvík minnkaði muninn í 40-49. 

Sara Líf, Ásta Júlía og Stone voru beittastar í fyrri hálfleik hjá Val, Sara með 11 stig (3-4 í þristum), Ásta 10 og Stone 12. Hjá Njarðvík var Dinkins með 14 og Paulina 9. 

Dinkins minnkaði muninn í 47-51 með þrist snemma í öðrum þrist Njarðvíkinga. Valkonur voru þó fljótar að koma muninum aftur upp í 10 stig 49-59 með tveimur sterkum þristum frá Þórönnu og Alyssu. Njarðvíkingar voru nokkrum sinnum afar nærri því að jafna leikinn en Dagbjörg Dögg með tvo vel tímasetta þrista hélt Njarðvík fjarri og Valur leiddi 62-70 fyrir fjórða leikhluta. Batamerki á heimakonum sem voru mun grimmari í þriðja heldur en í fyrri hálfleik og því allt opið fyrir æsispennandi fjórða leikhluta. 

Flott byrjun heimakvenna í Njarðvík á fjórða leikhluta færði muninn í 71-72 þegar 8 mínútur voru til leiksloka. Leikhlé hjá Valskonum sem náðu áttum á ný og juku muninn í 73-79 þegar 5 mínútur lifðu leiks. Það kom svo loks að því að Njarðvíkingum tókst að jafna en það gerði Dani Rodriguez þegar hún braust í gegn og jafnaði 79-79. Strax í næstu sókn kom Dinkins Njarðvík í 81-79 og í fyrsta sinn í forystu síðan í blábyrjun leiks. 

Dinkins tók sjö stiga syrpu fyrir Njarðvíkinga og kom Ljónynjum í 86-82 og m.a. var þar á ferðinni þristur spjaldið ofaní og innan við tvær mínútur eftir af leiknum. Hlíðarendakonur voru ekki af baki dottnar og tvö víti frá Söru Líf minnkuðu muninn í 88-87 þegar 1.15mín voru eftir. Valkonur fóru illa að ráði sínu þegar 50 sek voru eftir, misstu sniðskot og Dinkins fór yfir og setti niður stökkskot og kom Njarðvík í 90-87 með 26 sekúndur eftir af leiknum og Valskonur tóku leikhlé. 

Í loksókn sinni fóru Valskonur illa að ráði sínu, áttu möguleika á tveggja stiga körfu en hættu við og reyndu við þriggja sem varð aldrei og skotklukkan rann út og Njarðvík með boltann þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum. Valur braut síðan strax á Huldu Maríu sem setti bæði vítin og kom Njarðvík í 92-87. Valur brunaði fram og Alyssa setti lygilegan þrist með 2,3 sekúndur eftir og staðan 92-90. Mögnuð karfa og Njarðvík tók leikhlé. Valur náði að brjóta en Dinkins setti bæði vítin með 1,1 sek eftir og lokatölur 94-90. Seiglusigur hjá Njarðvík sem var mest 18 stigum undir í leiknum en börðu sér leið að sigrinum og verma nú toppsæti Bónusdeildar kvenna. 

Dagbjört var með frábæra spretti af bekknum fyrir Val í kvöld og þær Stone, Ásta og Sara Líf voru góðar og Alyssa sömuleiðis öflug. Sara Björk Logadóttir var á köflum að gera mjög vel varnarlega gegn Stone en hún deildi ábyrgðinni að mestu með Helenu Sverrisdóttur. Dani, Dinkins og Pauline fóru fyrir stigaskorinu en Sara Björk kom flott inn af bekknum og þá var Hulda María svellköld þegar hún setti tvö risastór víti á lokakaflanum. Heilt yfir spennandi og skemmtilegur leikur og jafnvel smá vorbragur á honum á köflum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -