Henrik Dettmann landsliðsþjálfari Finna í körfuknattleik hefur tekið við stjórnartaumunum hjá Besiktas í Tyrklandi. Dettmann mun stýra liðinu út þetta tímabil og einnig á því næsta.
Þessi 56 ára gamli Finni stýrði m.a. þjóð sinni á síðasta heimsmeistaramóti þar sem Finnar léku t.d. gegn Bandaríkjunum. Dettmann tekur við starfinu af Ahmet Kandemir sem sagði starfi sínu lausu eftir dræmt gengi liðsins í Tyrklandi sem og brotthvarfi liðsins úr EuroCup.
„Þetta er frábært tækifæri enda klúbbarnir í Tyrklandi á pari við þá sterkustu á Spáni og Rússlandi,“ sagði Dettmann við ráðninguna. Á ferlinum hefur Dettmann m.a. þjálfað Mitteldeutscher BC þar sem Hörður Axel Vilhjálmsson leikur nú. Þá verður Dettmann einnig við stýrið hjá Finnum í sumar sem í þriðja sinn í röð munu taka þátt í lokakeppni EuroBasket.



