spot_img
HomeNBADenver með níu fingur á sinn fyrsta titil

Denver með níu fingur á sinn fyrsta titil

Denver Nuggets slökuðu ekkert á því hreðjartaki sem þeir hafa á Miami liðinu í nótt og 108:95 sigur í nótt setur þá í ansi vænlega stöðu til að draga á land sinn allra fyrsta NBA titil. Aðeins fjögur stig skildu liðin í hálfleik en í þeim seinni skiptu Denver um gír og síðustu 3 mínútur leiksins virtist allt eldsneyti á tönkum Miami liðsins að þrotum komið.

Michael Malone þjálfari Denver vildi þó halda sínu liði kyrfilega niður á jörðinni þó staðan sé þeim hagstæð. “Við höfum ekki unnið neitt ennþá, við eigum enn eftir að vinna einn leik.” sagði Malone eftir leik.

Nokkuð óvænt þá skellti Jokic ekki að þessu sinni í þrennu en skoraði 23 stig og tók 12 fráköst. Það var hinsvegar Aaron Gordon sem steig upp og átti líkast til sinn allra besta leik í seríunni með 29 stig fyrir Denver. “Við erum með smekkfullt lið af leikmönnum sem geta komið inná og látið af sér kveða” sagði Gordon eftir leik.

Tvíhöfðaskrímsli Miami (Butler/Adebayo) skiluðu sínu að mestu leyti en svo virðist sem “auka leikarar” liðsins hafi klárað allt sitt í seríunni gegn Boston og það munar svo sannarlega um. Max Strus t.a.m. með 0 stig og aðeins 2 stig frá Gabe Vincent.

Forvitnilegt verður að sjá hvort galdramaðurinn Spoelstra nái að tosa enn eina kanínuna uppúr hattinum og koma Miami liðinu aftur á sigurbraut og þá í stöðu til þess að koma einvíginu í oddaleik. Ólíklegt úr þessu en hver veit en fyrsta kanínan þyrfti þá að láta sjá sig á mánudag í Denver.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -