LA Clippers hafa samið við Vinny Del Negro um að verða næsti þjálfari liðsins og verður sennilega tilkynnt um ráðningu hans síðar í dag.
Del Negro tekur við erfiðu verkefni þar sem ekkert hefur gengið hjá Clippers svo lengi sem elstu menn muna og hafa þeir aðeins tvisvar komist í úrslitakeppnina á síðustu 17 árum.
Þeir hafa hins vegar fengið Blake Griffin, sem var fyrsti valréttur í nýliðavalinu í fyrra, aftur eftir meiðsli sem komu í veg fyrir að hann léki svo mikið sem einn einasta leik í vetur. Þá eru þeir með stjörnuleikmanninn Chris Kaman, Byron Davis og Eric Gordon innan sinna raða þannig að mannskapurinn er ekki vandamálið.
Del Negro þjálfaði Chicago Bulls síðustu tvö ár þar sem hann vann 82 leiki og tapaði jafn mörgum ásamt því að komast í úrslitakeppnina bæði árin. Hann lenti hins vegar upp á kant við John Paxon, forseta liðsins, sem batt enda á dvöl hans hjá liðinu.



