Frábær stemning var í Icelandic Glacial höllinni í kvöld þegar að nýkrýndir deildarmeistarar Grindavíkur komu í heimsókn. Fyrir þennan leik voru heimamenn þeir einu sem höfðu lagt gestina af velli í deildinni.
Leikurinn fór rólega af stað og voru bæði lið að spila frábæra vörn. Jafnræði var með liðunum framan af en gestirnir náðu þó mest 7 stiga forskoti þegar 1 mínúta var eftir af leikhlutanum. Þórsarar náðu svo með góðum kafla að laga aðeins stöðuna fyrir lokin. Staðan eftir 1. leikhluta var 13-16 gestunum í vil.
Grindvíkingar komu sterkir inn í 2. leikhluta og náðu fljótlega 8 stiga forskoti er þeir breyttu stöðunni í 14-22. Þórsarar komu þá til baka og náðu muninum niður í 1 stig, í stöðuna 21-22. Mikil barátta var í báðum liðum og í stúkunni. Dómarar leiksins þurftu ítrekað að róa mannskapinn. Liðin skiptust svo á að skora og staðan í hálfleik var 36-36.
Það kom bara eitt lið til leiks í byrjun seinni hálfleiks. Heimamenn keyrðu vel á gestina frá Grindavík sem virtust ekki eiga nein svör við frábærum varnarleik Þórsara. Þetta var góður kafli hjá heimamönnum sem báru ekki nokkra virðingu fyrir Grindvíkingum. Þórsarar náðu mest 15 stiga forskoti í leikhlutanum. Staðan eftir 3. leikhluta var 59-48 heimamönnum í vil.
Jafnræði var með liðunum í 4. leikhluta og virtist sigur Þórs aldrei í neinni hættu. Forskotið sem Þórsarar náðu í 3. leikhluta hélst nánast til loka leiksins. Grindvíkingar reyndu eins og þeir gátu en munurinn var bara of mikill. Vörn Þórsara hélt haus allt til loka með frábærri vörn. Lokastaðan var 79-69 heimamönnum í vil. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í lok leiks.
Þessi frábæri sigur á deildarmeisturunum kom Þór í 2. sæti deildarinnar með 26 stig þar sem að Stjarnan tapaði fyrir ÍR í kvöld.
Hrikaleg stemning var í troðfullu húsinu og Græni drekinn fór gjörsamlega á kostum og rifu aðra stuðningsmenn með sér í gleðina.
Atkvæðamestir hjá Þór: Darren Govens með 27 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Blagoj Janev var með 20 stig og 10 fráköst. Gummi Jóns var með 14 stig og 4 fráköst. Hairston 7 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Baldur Þór með 4 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar. Grétar kom inn eftir meiðsli og spilaði vel en á samt smá í land með 4 stig. Darri var með 2 stig og 2 fráköst ásamt því að spila frábæra vörn. Þorsteinn með 1 stig.
Atkvæðamestir hjá Grindavík: Bullock með 18 stig og 7 fráköst ásamt því að spila frábæra vörn á Hairston. Watson með 17 stig. Siggi 7 stig. Jóhann Árni 7 stig. Björn Steinar 6 stig. Pettinella 5 stig. Palli 3 stig. Ómar með 2 stig og bræðurnir Ólafur og Þorleifur einnig með 2 stig.
Dómara leiksins, þeir Eggert Þór Aðalsteinsson og Björgvin Rúnarsson, sinntu erfiðu verkefni í kvöld en komust vel frá sínu.
Mynd/ Hjalti Vignis
Umfjöllun: Hákon Hjartarson



