spot_img
HomeFréttirDeildarmeistararnir sýndu klærnar(Umfjöllun)

Deildarmeistararnir sýndu klærnar(Umfjöllun)

01:48

{mosimage}
(Magnús Gunnarsson fór á kostum í kvöld)

Keflavík vann sannfærandi sigur á Þór Akureyri í kvöld í 8-liða úrslitum í úrslitakeppni Iceland Express-deild karla. Lokatölur voru 105-79 heimamönnum í vil og hafa Keflvíkingar tekið forystuna í einvíginu.
Fyrir leikinn var mikið talað um að þessi viðureign gæti verið jöfn þrátt fyrir að þetta væru liðin í 1. og 8. sæti að mætast. Keflvíkingar sýndu það í kvöld að enginn má vanmeta deildarmeistaranna sem léku frábæran körfubolta þar sem liðsheildin var í aðalhlutverki.

Keflvíkingar skoruðu fyrstu leiksins þegar B.A. Walker skoraði þriggja-stiga körfu og náðu þeir þar með forystunni í leiknum sem þeir létu svo ekki af hendi. Sigur þeirra má skrifast á góða byrjun í leiknum þar sem varnarleikur Keflvíkinga var mjög góður og áttu gestirnir í miklum vandræðum með pressuvörn heimamanna. Svo voru þeir einnig að hitta vel og settu þeir alls 19 þriggja-stiga körfur í leiknum í 38 tilraunum – helmings nýting.

{mosimage}
(Cedric Isom var stigahæstur Þórsara með 24 stig)

Munurinn að loknum fyrsta leikhluta var 17 stig 37-20 og síðustu körfu leikhlutans átti Gunnar Einarsson þegar hann setti flautukörfu eftir frábæran leik Arnar Freys sem fann hann frían fyrir utan þriggja-stiga línuna.

Leikmönnum liðanna gekk illa að skora í upphafi annars leikhluta en Gunnar Einarsson braut ísinn með þriggja-stiga körfu og jók hann muninn. Fljótlega eftir það fékk hann þriðju villu sína og fór útaf. Það hafði ekki mikil áhrif á Keflavík enda allir leikmenn liðsins að standa sig afar vel. Allt stefndi í stórsigur en Þórsarar löguðu stöðuna aðeins fyrir lok fyrri hálfleiks en hálfleikstölur voru 61-40.

Í hálfleik var B.A. Walker með 19 stig fyrir Keflavík en hann var frábær í fyrri hálfleik alveg eins og félagi hans  Magnús Gunnarsson sem var sjóðandi heitur fyrir utan þriggja-stiga línuna en hann var með 16 stig þegar leikurinn var hálfnaður. Hjá Þór var Cedric Isom með 17 stig og Robert Reed með 10 sem komu öll í 1. leikhluta.

{mosimage}
(Arnar Freyr Jónsson lét varnarleik gestanna líta vandræðalega út ítrekað í leiknum)

Þórsarar þurftu að hefja seinni hálfleik af miklum krafti. Smá vonarneisti kom í augu þeirra þegar Magnús Helgson setti þrist eftir 30 sekúndna leik. En Keflvíkingar slökktu þennan neista strax með þrist og þar var heitasti maður vallarins á ferðinni Magnús Gunnarsson. Liðin skiptust á körfum næstu mínútur. Keflvíkingar juku muninn ef eitthvað var og fór hann mest í 27 stig í leikhlutanum en mestur munur í leiknum var 29 stig í fjórða leikhluta. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 86-60.

Fjórði leikhluti varð aldrei spennandi og liðin skiptust á körfum. Munurinn fór í 29 stig strax í fyrstu sókn en eftir það náði Þór aðeins að klóra í bakkann en Hrafn Kristjánsson, þjálfari Þórsara, varð að játa sig sigraðan mun fyrr en hann óskaði sér. Lokatölur 105-79.

{mosimage}
(Þröstur Jóhannsson og Þorsteinn Gunnlaugsson að kljást um frákastið)

Hjá Keflavík var B.A. Walker afar góður ásamt títtnefndum Magnúsi Gunnarssyni. En það sem stóð upp úr hjá Keflavík var liðsheildin og hve menn komu tilbúnir í leikinn. Það skipti ekki máli hver var inná allir lögðu sitt af mörkum og börðust um lausa bolta og sóknarfráköst og í sókninni voru menn að reyna finna besta skotið. Stigahæstur var B.A. Walker og Magnús Gunnarsson með 22 stig hvor.

Hjá Þór var Cedric Isom sprækastur og endaði hann með 24 stig. Meira þarf að koma frá öllum öðrum leikmönnum liðsins en þeir fá gott tækifæri til að bæta fyrir sig á sunnudag þegar Keflvíkingar koma í heimsókn í Síðuskólann en Akureyringar eru erfiðir heim að sækja.

Tölfræði

[email protected]

Myndir: [email protected]

{mosimage}
(Luka Marolt)

{mosimage}
(Tommy Johnson)

{mosimage}
(Anthony Susnjara)

{mosimage}
(Cedric Isom)

{mosimage}
(Guðjón Skúlason reyndi við borgarskotið en geigaði)

Fréttir
- Auglýsing -