spot_img
HomeFréttirDeildarmeistararnir með öruggan sigur á Sauðárkróki

Deildarmeistararnir með öruggan sigur á Sauðárkróki

Tindastóll tók á móti deildarmeisturum Keflavíkur í Dominos deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Gestirnir léku án Harðar Axels en það kom að lítilli sök gegn andlausum heimamönnum sem létu í minni pokann á flestum sviðum leiksins, lokatölur 71-86 fyrir gestina.

Leikurinn fór ágætlega af stað hjá Stólum og þeir komust snemma í 12-6 forystu en gestirnir komu sér hægt og rólega inn í leikinn með frábærum varnarleik. Staðan 19-18 að loknum fyrsta leikhluta.  Gestirnir skoruðu svo fyrstu 6 stig annars leikhluta og farið var að bera á vonleysi í sóknarleik heimamanna þá þegar. Baldur tók leikhlé og Stólar náðu ágætu áhlaupi, sóknin gekk betur og þeir komust yfir eftir þrist frá Udras um miðjan leikhlutann. Keflvíkingar skelltu þá í lás og náðu 10-0 áhlaupi á næstu 2 mínútum og staðan allt í einu orðin 31-40. Heimamenn náðu aðeins að laga stöðuna fyrir leikhlé 37-43

Gestirnir skoruðu svo fyrstu 7 stig seinni hálfleiks, náðu muninum upp í 13 stig og litu ekki til baka eftir það. Sama hvað heimamenn reyndu þá virtust deildarmeistararnir ekki hafa mikið fyrir því að halda þeim frá sér. Sóknarleikur Tindastóls hélt áfram að vera vandræðalegur gegn sterkri vörn Keflvíkinga og munurinn hélst 5-13 stig alveg til enda og lokatölur eins og áður segir 71-86 fyrir gestina.

Hjá Tindastól var Tomsick stigahæstur með 20 stig en þurfti að hafa mikið fyrir þeim öllum. Hann bætti við 7 stoðsendingum en leikur annarra var ekki til útflutnings svo það sé sagt.  Hjá gestunum voru Dom Milka (25 stig, 8 fráköst) og Dean Williams (17 stig, 12 fráköst) en besti maður vallarins var CJ Burkes sem endaði með 31 í framlag, 27 stig og 10 stoðsendingar, frábær leikur hjá honum

Mynd: CJ Burkes keyrir á körfuna

Umfjöllun og mynd: Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -