Botnlið Skallagríms mætti í DHL-höllina í kvöld og öttu kappi við topplið KR. Það má nánast orða það sem svo að KR-ingar séu orðnir langþreyttir á því að tapa körfuboltaleikjum upp á síðkastið. Þeir þurftu að sætta sig við súrt tap í bikarnum í síðasta leik og lutu í parket í Schenker-höllinni í síðasta deildarleik. Gestirnir úr Nesinu eru vafalaust ekkert orðnir þreyttir á því að sigra leiki enda aðeins fjórir sigrar komnir í hús, sá fjórði kom einmitt í síðustu umferð. Þrátt fyrir allt mátti búast við mjög erfiðum leik fyrir gestina, jafnvel þó svo að hinn stórsnjalli Pavel væri fjarri góðu gamni.
Það sást vel í byrjun leiks hvort liðið sat í toppsætinu. Gestirnir buðu upp á átakanlegan varnarleik þar sem ein hindrun dugði til að galopna allt. Helgi, Brilli og Craion voru áberandi í byrjun og þegar 2:40 voru eftir af fyrsta leikhluta var staðan 13-4 og útlit fyrir óspennandi kvöld. Sem betur fer fyrir gestina hitnaði Tracy og honum einum að þakka að staðan var 22-14 eftir fyrsta fjórðung.
KR-ingar voru með leikinn í járngreipum og hertu enn frekar að gestunum fyrstu mínútur annars leikhluta. Í stöðunni 36-19 sáu vafalaust margir fyrir sér að úrslitin væru ráðin og leikurinn myndi verða eins og æfingaleikur. Sigtryggur Arnar forðaði hins vegar áhorfendum frá þeim hörmungum, skellti í 2 snögga þrista og fleiri í liði gestanna ákváðu að fylgja fordæmi hans. Vörn gestanna skánaði til mikilla muna en heimamenn lögðu sitt að mörkum með stirðbusalegum sóknarleik, sniðskotaklúðri og töpuðum boltum. Eftir enn einn þristinn frá S. Arnari og gullfallegu stökkskoti Tracy í blálokin var staðan hnífjöfn, 41-41, í hálfleik. Þarna voru gestirnir búnir að setja 17 stig gegn einu stigi KR-inga!
Heimamenn mættu grimmir til leiks í seinni hálfleik og Darri og Helgi splæstu í tvo þrista auk stiga frá Craion og KR-ingar aftur komnir með smá forystu. Maggi og Davíð svöruðu svo með þristum hinu megin og komu gestunum í fyrsta sinn yfir í stöðunni 52-53 um miðbik leikhlutans. Piltarnir frá höfuðstað Vesturlands svo sannarlega að sýna mikinn karakter og frábæra baráttu! Sigtryggur Arnar fékk svo sína fjórðu villu á þessum tímapunkti sem var vont fyrir gestina. Heimamenn sigu þá hægt en örugglega framúr aftur og Helgi tók út kvóta frá bikarúrslitaleiknum með flautu-þristi sem tryggði KR-ingum 9 stiga púða fyrir lokaátökin.
Paxel hitnaði fyrir gestina í fjórða leikhluta og raðaði þristum niður. Varnarlega voru Skallar hins vegar ansi misjafnir og heimamenn fengu á köflum mjög þægilegar körfur. Tracy setti enn einn þristinn fyrir gestina um miðjan leikhlutann og minnaði muninn í 72-69. Mikil seigla í gestunum og allt galopið. Þá ákvað Brilli að taka málin hreinlega í sínar hendur – hann var kaldur fyrir utan línuna í leiknum en smellti sér þá bara á póstinn og skoraði grimmt þar auk þess að koma sér í góð stökkskot þess á milli. Er tvær mínútur lifðu leiks var einkum Brilli búinn að sjá til þess að heimamenn voru komnir með 82 stig á töfluna en kólnandi skyttur Skalla aðeins 72. Útlitið orðið býsna dökkt fyrir botnliðið og þrátt fyrir allnokkra glæsilega þrista frá Paxel og Arnari náðu heimamenn að svara ítrekað, einkum af línunni, og sæmilega öruggur 96-86 sigur heimamanna staðreynd.
Botnlið Skallagríms hafði ekki erindi sem erfiði þrátt fyrir að sýna mjög flottar rispur í þessum leik. Ef horft er á lokatölur er auðvelt að segja að varnarleikur gestanna hafi orðið þeim að falli mun frekar en sóknarleikurinn. 86 stig ættu vel að duga til sigurs í leik fegurðar og yndisauka. Tracy var frábær í leiknum og skilaði 27 stigum og 16 fráköstum. Hann gerði einnig oft ágætlega varnarlega gegn hinum öfluga Craion. Arnar var einnig flottur með 21 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar. Paxel var rólegur í byrjun en snögghitnaði svo upp í 16 stig.
KR-ingar voru sennilega ekki orðnir hjartveikir og taugaveiklaðir þrátt fyrir fína baráttu gestanna. Þeir virtust alltaf eiga 1-2 aukagíra inni til að bæta svolítið í. Craion hefur átt betri leiki en var þó stigahæstur heimamanna með 22 stig og 16 fráköst. Brilli var hins vegar sá sem tók af skarið undir lok leiks og hélt Sköllum í smá fjarlægð með nokkrum mjög góðum körfum. Hann lauk leik með 19 stig. Björn byrjaði í kvöld í stað Pavels og skilaði fínu framlagi, setti 17 stig og tók 6 fráköst. Helgi setti einnig 17 stig og klúðrar sennilega aldrei þriggja stiga skoti aftur.
Skallagrímsmenn voru að drífa sig mikið í Nesið fagra eftir leikinn og náðist ekki til þeirra að leik loknum. Það liggur líka mikið við og mikilvægt að ná góðri hvíld fyrir botnbaráttuna framundan.
Tekinn var púlsinn á Brynjari Þór eftir leik. Hann talaði af fagmennsku og virðingu um andstæðinga sína í kvöld og spáði þeim velgengni í botnbaráttunni framundan. Brynjar var að mati undirritaðs sá sem tók að sér að bæta upp fjarvist Pavels og heimtaði boltann ítrekað í lokin og skilaði honum í gegnum körfuhringinn:
Það hefur tæplega verið erfitt fyrir ykkur að gíra ykkur upp fyrir þennan leik og þetta byrjaði mjög vel hjá ykkur.
Já, við byrjuðum ágætlega fyrstu 15 mínúturnar en svo fórum við að gefa þeim opin skot trekk í trekk og hættum að hjálpa hver öðrum í vörninni. Sóknin varð stíf og kannski vegna þess að við erum að aðlaga okkur að því að vera án Pavels.
Þrátt fyrir að missa átján stiga forskot niður á skömmum tíma og án Pavels þá voru þið tæplega orðnir mjög smeykir eða hvað?
Neinei, en þeir eru vissulega með fallbyssur í Palla og Magga og þar að auki með mjög spræka stráka. Skallar eru bara komnir með nokkuð þéttan hóp. Ef þeir ná saman núna síðustu leikina held ég að þeir eigi eftir að sigra leiki í Borgarnesi. Það er erfitt að stoppa þá og þeir voru mjög erfiðir í kvöld.
Já akkúrat, Skallar hafa kannski komið svolítið á óvart að ná að koma til baka úr nánast tuttugu stiga holu?
Já þeir sýndu mikla baráttu. En hvað okkur varðar má segja að þetta hafi verið endurtekið efni, við komumst yfir í leikjum en þá förum við að slaka á og förum í cruise-control og svo vöknum við upp við vondan draum þegar við höfum misst forystuna. Þetta er búið að gerast of oft í vetur og við þurfum einhvern veginn að laga það.
Umfjöllun: Kári Viðarsson



