spot_img
HomeFréttirDarri um breytingar á milli leikja í einvíginu gegn Val "Maður þarf...

Darri um breytingar á milli leikja í einvíginu gegn Val “Maður þarf að reyna að setja sig í spor Finns”

KR lagði Val í kvöld í átta liða úrslitum Dominos deildar karla. Með sigrinum komst KR aftur í bílstjórasætið í einvíginu, 2-1, en næsti leikur liðanna er komandi miðvikudag í DHL Höllinni.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Darra Atlason, þjálfara KR, eftir leik í Origo Höllinni.

Darri Freyr, þjálfari KR, kom nú brosandi og hress í viðtal:

Til hamingju með geggjaðan sigur, þú hlýtur að vera bara í skýjunum?

Jájá, ég er bara mjög ánægður með hvernig við framkvæmdum þær breytingar sem við lögðum upp með í sóknarleiknum, við skorum 115 stig og það fer ansi langt með þetta í þessari deild og þar vannst þessi leikur.

Einmitt. Þetta var umtalsverð sóknarveisla í fyrri hálfleik, það sem lagt var upp með sóknarlega virðist hafa gengið vel hjá báðum liðum en væntanlega síður það sem liðin hafa talað um að gera varnarlega?

Já, þetta eru í rauninni eins og veðmál út um allt, menn stefna á að taka þetta í burtu og þá ferðu að gera þetta í staðinn..og þegar andhverfa þess sem lagt var upp með að stoppa gengur vel þá þarf maður að fara dýpra í leikbókina og reyna að breyta ennþá fleiri hlutum. Við vorum svo sem ekkert svo óánægður með það hvað þeir voru að fá í fyrri hálfleik en þeir gerðu hins vegar mjög vel í að nýta þau tækifæri.

Jájá, og Cardoso var náttúrulega gersamlega á eldi…

Nákvæmlega, hann var frábær, en hann var kannski ekki að fara að skora 50 stig held ég en…

…nei, ekki við því að búast svo sem…

…nei, en við breyttum líka match-upinu þar, sem var betra í seinni hálfleik.

Já, mér fannst vörnin í heildina hjá ykkur, kannski augljóslega, mikið betri í seinni hálfleik. Var eitthvað sérstakt sem þú lagðir áherslu á varðandi varnarleikinn fyrir seinni hálfleikinn?

Við breyttum aðeins bara hver væri að dekka hvern, en við héldum sama kerfi samt. Þeir refsuðu okkur aðeins fyrir það um miðbik þriðja og þá vorum við að pæla í að skipta í varaplanið en ákváðum að halda okkur við þetta og náðum kannski að lesa betur í aðstæður og náðum að stoppa þegar það þurfti.

Einmitt, Valssóknin hökti einmitt allsvakalega á löngum köflum í seinni hálfleik…

Já…við getum líka sett svolítið varnarlið inn á þegar við erum með Brandon og Zarko saman á vellinum, auðvitað kemur það eitthvað niður á sókninni en þegar að menn eru að setja skot og framkvæma vel það sem við leggjum upp þar eigum við að geta búið okkur til góð tækifæri beggja megin á vellinum.  

Akkúrat, við töluðum um það eftir síðasta leik að þið þyrftuð að reyna að koma í veg fyrir bunka af sóknarfráköstum hjá Val…sé ekki betur en það hafi gengið vel?

Ég er ekki búinn að sjá tölurnar en það hljóta að hafa verið fleiri sóknir í þessum leik en síðasta, en sóknarfráköstin voru samt færri hjá Val svo það er skref í rétta átt…en þeir eru samt með 12 stig eftir sóknarfráköst sem er enn talsvert mikið…

Það er það. En hvernig er staðan á Kobba, hann meiddast eitthvað í leiknum…?

Þetta var bara högg á lærið, svo þetta er day-do-day mál bara…

Akkúrat, ekkert slitið eða neitt svoleiðis…

Neinei, og þá fékk Þórir bara tækifæri til að vera gaurinn til að dekka Roland og var stórkostlegur!

Já mikið rétt! En þú veist það betur en ég að Finnur er refur og þetta er ekkert búið…?

Neinei, ég þekki það mæta vel og þeir gerðu frábærar breytingar á milli leiks 1 og 2 og við búumst við einhverju slíku aftur…og maður þarf að reyna að setja sig í spor Finns til að reyna að komast að því hverju maður myndi breyta sjálfur eða eitthvað til að reyna að finna út úr þessu..!

Já, reyna að kíkja inn í framtíðina…!

Jájá! Maður þarf líka að vera bara búinn undir allt á svona prinsippunum okkar sem er eitthvað sem við leggjum mikið upp úr.

Einmitt, þú getur kannski fengið að kíkja í spádómskúluna…ef þú borgar!

Já, eða að fara að rifja upp einhver gömul tímabil!

Sagði Darri, og ekki annað að sjá en að hann hafi í fullu tré við reynda refi eins og Finn, í það minnsta eins og staðan er núna.

Fréttir
- Auglýsing -