spot_img
HomeFréttirDarri demantsins virði

Darri demantsins virði

Fyrsti leikur úrslitanna þetta tímabilið fór fram í kvöld í DHL-höll deildarmeistaranna. Andstæðingarnir komu frá Grindavík og þar er ekki um neina aukvisa að ræða enda Íslands- og bikarmeistarar eins og sakir standa. Minna má á að Grindavíkurliðið er jafnframt það eina sem hafði sigur gegn heimamönnum í deildarkeppninni í allan vetur og því ekki á vísan að róa í þessum leik.
 
 
KR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og vildu greinilega sýna gestunum að torsóttur yrði annar sigur í DHL-höllina. Vörn gestanna var hræðileg og Demond var í sniðskotaæfingu undir körfunni og raðaði 8 ódýrum stigum niður. Staðan var orðin 16-2 þegar Lewis stimplaði gestina inn í leikinn og KR-liðið á veggspjald með svakalegri troðslu. Ólafur bætti svo við dæmigerðum ÓlaÓl djúpum þristi og KR aðeins 22-18 yfir eftir fyrsta fjórðung.
 
Ólafur hafði nælt sér í þrjár villur strax í fyrsta svo Grindvíkingar voru alveg bræðralausir á vellinum auk þess sem Siggi var kominn með tvær villur. Gestirnir létu það ekkert á sig fá og jöfnuðu í 26-26 með Lewis öflugan á báðum endum vallarins. Darri tók þá til sinna ráða og Demond svaraði troðslu Lewis með stórkarlalegu iðnaðartroði í körfu gestanna.
 
Íslandsmeistararnir létu þó engan bilbug á sér finna og fengu dýrmæta mola í formi þrista, fyrst frá Daníel Guðmunds og svo Jóni Axel í blálok fjórðungsins, staðan 46-44 í hálfleik og allt í járnum.
 
Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik á svipuðum nótum og í byrjun leiks. Darri þarf tæplega að sanna neitt fyrir neinum en sýndi enn og aftur að hann er þyngdar sinnar virði í gulli væri hann þyngri en hann er! Drengurinn var sjóðandi heitur og raðaði stigum á töfluna, einkum fyrir utan. KR-ingar sigu framúr og Martin lauk þriðja leikhluta með galdrakenndu gegnumbroti og tryggði sínum mönnum 10 stiga forystu, 74-64 fyrir síðasta fjórðunginn.
 
Eftir frekar rólega byrjun í fjórða hvað varðar stigaskorun sýndu Grindvíkingar að aldrei skal vanmeta hjartalag meistanna. Þeir byrjuðu leikhlutann 2-10, Lewis átti sóknarfrákaststroðslu og Jói negldi fallegum þristi og staðan skyndilega 76-74 er rúmar 5 mínútur voru eftir! Svakaleg spenna og allt stefndi í frábærar lokamínútur. Öllum nema KR-ingum til mikilla vonbrigða gerðu heimamenn lítið úr þeirri von, svöruðu áhlaupi gestanna vel með þristi frá Martin og góðri körfu. Staðan 81-74 og tæpar fjórar mínútur eftir. Tveimur mínútum síðar var munurinn kominn í 10 stig aftur, 84-74. Átakanlegar lokamínútur urðu örlögin, KR-ingar settu allnokkur stig af línunni og Grindvíkingar komust ekki nær. Lokatölur 93-84 heimamönnum í vil.
 
Demond átti góðan leik fyrir heimamenn með 22 og 18 fráköst. Darri var frábær, setti 18 stig í örfáum skotum eins og svo oft áður. Pavel fylgir svo ávallt þeirri reglu að vera a.m.k. nálægt þrennunni og skilar kannski meiru til liðsins en margur tekur eftir.
 
Grindvíkingar þurfa ekki að skammast sín fyrir tilraunina en það vantaði aðeins meira frá aðeins fleirum. Lewis skilaði 22 stigum og 6 stoðsendingum og Jóhann átti ágæta spretti með 16 stig. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi og sorglegt að Þorleifur skyldi taka upp á því að meiðast svona á versta tíma.
 
Næsti leikur verður í Röstinni á föstudag á hefðbundnum tíma. Fyrir hlutlausa körfuboltaunnendur er óskandi að meistararnir bíti frá sér, jafni einvígið og geri það að spennandi og stórkostlegri körfuboltaveislu.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -