Körfuknattleiksdeild Skallagríms er í óða önn að styrkja liðið fyrir komandi átök í 1. deildinni í vetur og hefur fengið Bandaríkjamanninn Darrell Flake til liðsins. Flake er öllum körfuknattleiksunnendum á Íslandi vel kunnur og hefur hann leikið sex tímabil á Íslandi, þar af tvö góð tímabil í Borgarnesi 2006-2008. Frá þessu er greint á heimasíðu Borgnesinga, www.skallagrimsur.is
Á síðasta tímabili lék Flake með Grindavík í Iceland Express deildinni þar sem hann var með 20.5 stig og 7.3 fráköst að meðaltali og skilaði 24.1 framlagsstigi að meðaltali í leik.
Pálmi Þór þjálfari Skallagríms var að vonum sáttur. „Það var nokkuð ljóst frá því að ég tók við þessu að við myndum missa okkar helstu pósta undir körfunni fyrir komandi tímabil þannig fljótlega hófst leitin að manni undir körfuna. Ég stakk þessu að Flake fljótlega þar sem við erum miklir félagar og á endanum náðum við saman um að hann kæmi hingað sem eru frábærar fréttir fyrir okkur,“ sagði Pálmi í samtali við félagssíðu Borgnesinga en fréttina í heild sinni má lesa með því að smella hér en m.a. er rætt við Flake í fréttinni.
Ljósmynd/ Flake í leik með Grindavík gegn Breiðablik á síðasta tímabili.