17:27
{mosimage}
Nýliðar Breiðabliks í Iceland Express deild karla hafa náð samkomulagi við bandaríska leikmanninn Darrell Flake um að leika með liðinu á næsta tímabili. Flake sem kom upphaflega til Íslands haustið 2002 til að leika með KR hefur leikið þrjú tímabil, fyrst með KR, þá Fjölni og svo Skallagrím á síðasta tímabili. Það er ljóst að hann mun vera mikill liðsstyrkur fyrir nýliðana.
Einar Árni Jóhannsson þjálfari Blika sagði í samtali við karfan.is að það væri gríðarlegur styrkur að fá Flake sem hann telur einn besta erlenda leikmanninn sem leikið hefur á Íslandi og sem dæmi um það var hann með hæsta framlag allra leikmanna á síðasta tímabili. Þá sýni þetta að Blikar séu ekki komnir upp til að hanga í deildinni, þeir ætli sér meira.
Við höfðum svo samband við Darrell Flake sem er staddur hjá fjölskyldu sinni í Chicago og spurðum hvernig honum litist á komandi tímabili í herbúðum nýliðanna. „Mér líst vel á að ganga til liðs við þá, þeir unnu 1. deildina örugglega þannig að þeir þekkja það að vinna og hafa sigurvilja. Þá er Nemanja Sovic í þeirra herbúðum en við þekkjumst vel frá því við lékum saman í Fjölni. Ég er vanur að leika á toppi deildarinnar og veit hvað ég þarf að gefa af mér svo liðið verði ekki í botnbaráttu, heldur samkeppnishæft í toppbaráttunni.“
Mynd: [email protected]



