spot_img
HomeFréttirDanir of sterkir: 18 ára stelpurnar hafa lokið leik

Danir of sterkir: 18 ára stelpurnar hafa lokið leik

 
U18 ára kvennalandslið Íslands mátti sætta sig við enn einn skellinn áðan á Norðurlandamótinu þegar liðið lá 45-93 gegn Dönum. Þær dönsku voru beittar strax frá fyrstu mínútu og keyrðu yfir íslenska liðið. U18 ára liðið tapaði því öllum leikjunum sínum á Norðurlandamótinu og hefur lokið keppni. Gengur betur næst.
Danir byrjuðu með látum og keyrðu vel upp hraðann í leiknum og komust snemma í 5-12 og hertu bara róðurinn uns þeir leiddu 7-25 að loknum fyrsta leikhluta. Að sama skapi var íslenska liðið ekki nægilega fljótt til baka og Danir keyrðu vel í bakið á okkar konum.
 
Dagbjört Samúelsdóttir minnkaði muninn í 10-30 með þriggja stiga körfu snemma í öðrum leikhluta en Danir voru við stjórnartaumana og pressuðu vel á íslensku bakverðina sem fóru ógætilega með boltann. Íslenska vörnin gerði þó smávægilega gangskör á sínum málum undir lok fyrri hálfleik en staðan 23-51 Dönum í vil í leikhléi.
 
Danir opnuðu þriðja leikhluta 7-0 og yfirburðir liðsins héldu áfram að gera íslenska liðinu erfitt um vik. Ísland náði að skora eftir um fimm mínútna leik í þriðja leikhluta þegar þær bláu minnkuðu muninn í 25-65 og nokkuð ljóst að Danir færu með sigur af hólmi í þessari viðureign. Staðan að loknum þriðja leikhluta var svo 30-76 Dönum í vil.
 
Fjórði leikhluti varð, eins og gefur að skilja, aldrei spennandi en Ísland tók eina góða 8-2 rispu og leikmenn liðsins börðust allt til endaloka en Danir voru einfaldlega allt of sterkir að þessu sinni og höfðu öruggan 45-93 sigur.
 
Ína María Einarsdóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 10 stig, Berglind Gunnarsdóttir gerði 9 og tók 7 fráköst og Dagbjört Samúelsdóttir bætti við 7 stigum. Þá var Hildur Björg Kjartansdóttir með 6 stig og 6 fráköst.
  
 
Fréttir
- Auglýsing -